Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Vilja aðild að Transparency International

03.03.2015 - 15:53
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Allt útlit er fyrir að landsdeild alþjóðasamtakanna Transparency International verði stofnuð á Íslandi innan skamms. Samtökin Gagnsæi, sem stofnuð voru í lok síðasta árs, hafa sótt um aðild að samtökunum.

Transparency international eru meðal fremstu samtaka heims á sviði spillingarannsókna og reikna reglulega út spillingarvísitölu fyrir hvert land í heiminum. Rannsóknir þeirra taka til spillingar í viðskiptum, innan stjórnsýslu og stofnana og dómskerfisins.

Umsókn unnin í samvinnu við Transparency International

Samtökin Gagnsæi voru stofnuð í lok desember og fer fyrsti fundur samtakanna fram á fimmtudag.  Á fundinum verða fulltrúar frá Transparency International, en forsvarsmenn Gagnsæis hafa sótt um aðild að samtökunum. Umsóknarferlið er vel á veg komið og umsóknin er unnin í samvinnu við alþjóðasamtökin. Þegar starfa yfir hundrað landsdeildir á vegum samtakanna.  

Lengi verið í umræðunni

Jón Ólafsson, prófessor við HÍ og meðlimur í stjórn Gagnsæis,  segir það hafa verið lengi í umræðunni að stofna landsdeild hér. Yfirlýst markmið Gagnsæis eru að uppfræða almenning um spillingarhættur í íslensku samfélagi og vinna með fulltrúum atvinnulífs og stjórnsýslu að því að fyrirbyggja spillingu í grunnstoðum samfélagsins. 

Rekin á félagsgjöldum og styrkjum

Starfsemi samtakanna verður fjármögnuð með félagsgjöldum og styrkjum, og segir Jón að þar verði allt upp á borðinu. Enn hefur því ekki verið slegið föstu hvaða verkefni samtökin munu taka að sér en Jón segir að starfsemin gæti falið í sér að veita ráðgjöf og aðstoð, miðla þekkingu og gera úttektir að eigin frumkvæði.

Sjá um gagnaöflun hérlendis

 Loks kemur til greina að landsdeildin sjái um gagnaöflun hérlendis fyrir alþjóðlegar spillingarrannsóknir Transparency international, en hingað til hafa erlendar deildir samtakanna safnað og unnið úr gögnum um Ísland. 

Samstarf stjórnvalda og félagasamtaka aukist

Jón segir mikilvægt að horfa til þess að starfsemin sé sprottin úr grasrótinni. Það séu einstaklingar sem eigi frumkvæðið, ekki stjórnvöld eða fyrirtæki. Þá segir hann að færst hafi í aukana að stjórnvöld vinni með óháðum félagasamtökum, þannig hafi þróunin verið víða um heim. 

Stefnt að aukinni fjölbreytni í stjórninni

Fjórir af sjö stjórnarmeðlimum samtakanna starfa við Háskóla Íslands og samtökin eru með aðsetur í Háskólanum Jón segir þetta í raun tilviljun, gert sé ráð fyrir að fólk úr ólíkum áttum komi að starfi félagsins í framtíðinni og það á einnig við um stjórnarsetu. Hann segist hafa fundið fyrir miklum áhuga almennings á starfinu, einkum á Facebook.  

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV