Vilja að Vegagerðin skoði norsku tillöguna

18.07.2018 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd: Multiconsult
Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti samhljóða að óska eftir því að Vegagerðin taki annað leiðarval en um Teigsskóg til skoðunar, tillögu norsku Verkfræðistofunnar Multiconsult. Tillaga að aðalskipulagsbreytingum sveitarfélagsins verður því ekki auglýst að sinni.

 

Vinna að aðalskipulagsbreytingum

Í tillögu að breytingum á aðalskipulagi Reykhólahrepps er gert ráð fyrir leið Þ-H um Teigsskóg. Leið sem er tillaga Vegagerðarinnar, ódýrasta leiðin um Gufudalssveit en veldur miklum umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun hefur veitt umsögn um tillöguna og er næsta skref að auglýsa hana.

Önnur tillaga Multiconsult

Í vor ákvað sveitarstjórn hins vegar að fá norsku verkfræðistofuna Multiconsult til að kanna aðra möguleika á leiðarvali og því var beðið með að auglýsa tillöguna. Multiconsult leggur til að vegur um Gufudalssveit liggi um Reykhóla og þveri Þorskafjörð með 800 metra brú. Leiðin hafi góð samfélagsleg áhrif, valdi ekki miklum umhverfisáhrifum og Multiconsult telur kostnað ekki fjarri kostnaði við Þ-H leiðina.

Vegagerðin skoði tillöguna þrátt fyrir efasemdir

Vegagerðin sér ýmsa vankanta á tillögu Multiconsult og telur til dæmis kostnaðinn vanmetinn. Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti þó samhljóða á síðasta sveitarstjórnarfundi að fara fram á það við Vegagerðina að hún taki tillögu Multiconsult til ítarlegri skoðunar.

Álit eigi að liggja fyrir í október

Ingimar Ingimarsson, oddviti Reykhólahrepps, segir að í ljósi þess að Þ-H leiðin um Teigsskóg mætir mikilli mótstöðu vegna umhverfisáhrifa sé mikilvægt að Vegagerðin kanni tillögu Multiconsult til hlítar. Stefnt er að því að álit Vegagerðarinnar liggi fyrir í október og verður tillaga að aðalskipulagsbreytingum sveitarfélagsins því ekki auglýst að sinni.

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi