Vilja að umdeildum búðum verði lokað

30.08.2018 - 08:11
epa06901838 Protesters are seen during the Evacuate Manus and Nauru Protest - 'Five Years Too Long, 12 Deaths Too Many' Protest at Town Hall in Sydney, Australia, 21 July 2018. Refugee Action Coalition (RAC) Sydney organised a protest against
Frá mótmælum í Sydney í síðasta mánuði þar sem hvett var til að búðunum í Nauru og Papúa Nýju-Gíneu yrði lokað. Mynd: EPA-EFE - AAP
Mannréttindasamtökin Amnesty International og fleiri samtök hvöttu í morgun leiðtoga Kyrrrahafsríkja til að krefjast þess að Ástralar lokuðu flóttamannabúðum sínum í eyríkinu Nauru, þegar þeir koma saman til fundar í næstu viku. Samtökin segja búðir þessar svartan blett á svæðinu .

Árlegur leiðtogafundur Pacific Islands Forum eða PIF verður á Nauru dagana 3.-6. september er fundarstaðurinn skammt frá búðum sem kallaðar hafa verið Guantanamo Ástralíu.

Flóttamenn og hælisleitendur sem reynt hafa að komast til Ástralíu með ólöglegum hætti sjóleiðina hafa undanfarin ár verið fluttir til Nauru eða í búðir á Manus-eyju í Papúa Nýju-Gíneu í samræmi við samkomulag við stjórnvöld í Canberra. 

Anmesty International og áttatíu önnur samtök birtu í morgun bréf til leiðtoga þeirra átján ríkja sem tilheyra Pacific Islands Forum þar sem sagði að þeir gætu ekki lengur látið þetta afskiptalaust enda líf og heilsa fólks í hættu við niðurlægjandi aðstæður. Flóttafólk í búðum í Papúa Nýju-Gíneu sæti ofbeldi og fjöldi kvenna og barna hafi verið beittur kynferðisofbeldi.

Samkvæmt Flóttamannaráði Ástralíu eru nú um 200 manns í búðum í Nauru, þar af tugir barna. Fréttastofan AFP segir framtíð fólksins í óvissu og geðræn vandamál hafi farið vaxandi.

Samkvæmt AFP verður fréttaflutningur af leiðtogafundinum takmarkaður og bendir á að búðirnar séu ein helsta tekjulind eyjaskeggja, sem hafi klárað sína helstu auðlind sem hafi verið fosfat.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi