Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vilja að stjórnvöld hafi hraðar hendur

23.01.2019 - 14:33
Mynd með færslu
 Mynd:
BSRB segir að stjórnvöld verði að hafa hraðar hendur við að fjármagna tillögur átakshóps í húsnæðismálum og tryggja að þær nái fram að ganga. Í yfirlýsingu samtakanna segir að tillögurnar séu vel unnar og gott innlegg í umræðuna. BSRB segir mikilvægt að fylgja eftir tillögum um áframhaldandi uppbyggingu almennra íbúða og að ríki og sveitarfélög auki fjárveitingar í stofnframlög á næstu árum.

Átakshópur stjórnvalda kynnti í gær 40 tillögur að aðgerðum til að bæta stöðuna á húsnæðismarkaði.

„Nú hafa fulltrúar stjórnvalda, sveitarfélaga og heildarsamtaka launafólks og atvinnurekenda sameinast um hvernig eigi að bregðast við uppsöfnuðum skorti á íbúðum sem leitt hefur til mikillar verðhækkunar á íbúða- og leigumarkaði og húsnæðisóöryggis. Það gefur okkur von um að húsnæðisþörf ólíkra hópa verði mætt,“ er haft eftir Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formanni BSRB.„Það á að vera forgangsverkefni stjórnvalda að húsnæðiskostnaður lækki og að tryggt verði nægilegt framboð á húsnæði svo að fólk hafi raunverulegt val um hvort það eigi eða leigi húsnæði.“
 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV