Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vilja að mótmælendur verði leystir úr haldi

11.03.2019 - 21:15
Mynd:  / 
Hælisleitendur og flóttamenn sem voru samankomnir á Austurvelli fyrr í dag hafa fært sig að lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Þar er þess krafist að lögreglan leysi úr haldi tvo mótmælendur sem handteknir voru í átökum á Austurvelli fyrr í dag.

Lögreglan beitti piparúða á mótmælendur og handtók tvo á Austurvelli. Mótmælin voru í kjölfarið færð að lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Þar er þess krafist að lögreglan leysi fólkið úr haldi. 

Tinna Lind Hallsdóttir, mótmælandi, segir að handtökurnar séu byggðar á misskilningi.  „Þeir handótku tvo úr hópnum og þar af einn Íslending sem hefur hjálpað hælisleitendum við skipulag. Nú eru þeir bara að krefjast þess að þeim verði sleppt úr haldi.“

Til stimpinga hefði komið þegar mótmælendur reyndu að verja pappaspjöld sín. „Einhvejrir komu með pappakassa til að búa til skilti en lögreglan hélt því fram að þeir hafiu ætlað að kveikja bál sem var rugl. Þetta var allt saman byggt á misskilningi en fólk var að verja spjöldin sín og og reiddist þegar lögregla ætlaði að taka þau.“

Benjamín Júlían, sem einnig tók þátt í mótmælunum, segir að hælisleitendurnir hafi ætlað að gista undir pappaspjöldunum þar sem tjöld þeirra hafi verið jarlægð. Engin áform hafi verið um að safna í bálköst líkt og lögregla haldi fram. 

Ekki hefur komið til átaka við lögreglustöðina en mótmælin þar standa enn yfir. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV