Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Vilja að Landsbankinn verði í ríkiseigu

12.04.2015 - 17:47
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Framsóknarflokkurinn vill að Landsbankinn verði áfram í ríkiseigu og starfi sem samfélagsbanki þar sem markmiðið er ekki að hámarka arðsemi.

 

Flokksþingi Framsóknarflokksins lauk í dag þegar fjölmargar ályktanir þess voru samþykktar. Þeirra á meðal tillaga Karls Garðarssonar þingmanns um að banna alfarið bónusa í fjármálakerfinu og tillaga Frosta Sigurjónssonar um Landsbankann.

„Tillagan gengur sem sagt bara út á það að Landsbankinn verði ekki seldur heldur verði frekar gerður að samfélagsbanka, mætti kalla það, sem verður í eigu ríkisins og reynir að efla samkeppni á bankamarkaði með því að bjóða góða þjónustu og á góðu verði. Hann gæti hugsanlega verði bakland fyrir sparisjóðakerfið sem er veikt nú um mundir,“ segir Frosti. 

Ef Landsbankinn yrði seldur myndi hann reyna að hámarka arðsemi á fákeppnismarkaði. Með því að reka Landsbankann sem samfélagsbanka, mætti aftur á móti efla samkeppni á bankamarkaði. „Það eru fyrirmyndir af svona bönkum, meðal annars frá Þýskalandi og víðar þar sem bankar eru ekki reknir beinlínis í hagnaðarskyni, að sjálfsögðu ekki til að tapa peningunum, til þess að frekar að þjónusta sitt samfélag.“

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV