Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vilja að Kópavogur setji sér loftslagsstefnu

15.10.2018 - 06:56
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Pírata í Kópavogsbæ hafa lagt fram tillögu í bæjarráði um að sveitarfélagið móti sér stefnu í loftlagsmálum þar sem dregin eru fram markmið til að minnka útblástur koltvíoxíðs í andrúmsloftið, bæði fyrir Kópavogsbæ sem sveitarfélag og vinnustað.

Einnig er í tillögunni gert ráð fyrir aðgerðaráætlun og eftirfylgni. Í tillögunni segir að afar fá sveitarfélög á Íslandi hafi sett sér stefnu í loftlagsmálum. Brýnt sé að auka þá aðkomu og vinnu. Kópavogur hafi tækifæri til þess að skipa sér sess sem sjálfbært fyrirmyndar samfélag í loftlagsmálum á Íslandi. Tillagan var lögð fram í bæjarráði fyrir helgi og var henni vísað til bæjarritara til umsagnar. 

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata, lagði fram bókun á fundinum. „Hnattræn hlýnun af mannavöldum er helsta vá okkar tíma. Við þurfum að bregðast við strax og það er mikilvægt skref að sveitarfélög leggi metnað í að sporna gegn loftslagsbreytingum og stefni að kolefnishlutleysi eins fljótt og auðið er.“

Reykjavíkurborg samþykkti loftslagsáætlun árið 2016. Þar er stefnt að því að borgin verði kolefnishlutlaus árið 2040. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV