Vilja að húnarnir heiti Hong og Kong

06.09.2019 - 09:24
Mynd: EPA-EFE / ZOO BERLIN
Pönduhúnarnir tveir sem fæddust nýverið í dýragarðinum í Berlín í Þýskalandi eru óvænt orðnir hluti af hápólitísku deilumáli Kína og Hong Kong. Í nafnasamkeppni sem þýska dagblaðið Der Tagesspiegel efndi meðal lesenda sinna eru nöfnin Hong og Kong efst á blaði. Meðal annarra vinsælla tillagna eru Joshua Wong Chi-fung og Agnes Chow Ting, eftir helstu leiðtogum mótmæla lýðræðissinna í Hong Kong.

Húnarnir fæddust birnunni Meng Meng á laugardagskvöld. Dýragarðurinn í Berlín fékk hana að láni frá Kína. Skila verður húnunum innan fjögurra ára. Der Tagesspiegel telur nöfnin geta verið lúmska leið til að halda þeim í Þýskalandi.

Nafnasamkeppnin er þó engan vegin bindandi, né í samráði við dýragarðinn. Fleiri fjölmiðlar hafa þó tekið málið upp og hvatt til þess að beita húnunum í utanríkispólitík Þýskalands. Bild ákvað í gær að kalla húnana Hong og Kong, og hvetur þýsk stjórnvöld til þess að bregðast við fæðingu húnanna á pólitískan hátt. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, er í opinberri heimsón í Kína. Bild leggur til að hún færi Xi Jinping, forseta Kína, fregnirnar af nafngift húnanna á meðan heimsókninni stendur.

Talsmaður Merkel, Steffen Seibert, skrifaði á Twitter í morgun að Merkel hafi kallað eftir því að réttindi og frelsi íbúa Hong Kong verði tryggt. Hún var þá nýkomin af fundi með Li Keqiang, forsætisráðherra Kína. Merkel sagði samtal vera einu leiðina til að finna lausn á málinu; og hún óskaði eftir því að allt yrði gert til að forðast ofbeldi.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi