Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vilja að hætt verði við byggingu hótels

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Vilja að hætt verði við byggingu hótels

25.09.2018 - 20:32

Höfundar

Fáheyrt er að jarðneskar leifar fólks í vígðum reit séu látnar víkja fyrir veraldlegri byggingu, segja þrír heiðursborgarar Reykjavíkur sem afhentu borgarstjóra og formanni borgarráðs áskorun í dag. Þau vilja að hætt verði við byggingu hótels á Landssímareit þar sem áður var Víkurkirkjugarður.    

Framkvæmdir eru nú hafnar við niðurrif Landssímahússins við Austurvöll. Framkvæmdin hefur verið mjög umdeild - ekki síst vegna þess að í hótelinu sem þar á að reisa verður kjallari sem fer að hluta inn á hinn forna Víkurgarð.

Heiðursborgarar Reykjavíkur; Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, Þorgerður Ingólfsdóttir, tónlistarfrömuður og kórstjóri, og Friðrik Ólafsson, stórmeistari í skák og fyrrverandi skrifstofustjóri Alþingis, afhentu í dag Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra, og Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, formanni borgarráðs, áskorun um að látið verði af áformum um að reisa hótelið.

Friðrik las upp áskorunina og rifjaði upp að jarðneskar leifar þeirra sem þar lágu hafi verið fjarlægðar fyrir tveimur árum.  „Fáheyrt er að jarðneskar leifar fólks í vígðum reit séu látnar víkja fyrir veraldlegri byggingu. Þetta er gróf vanvirðing við söguna og minningu forfeðra okkar.“

Mannvirki í fornum kirkjugarði samrýmist ekki lögum um kirkjugarða.

„Við skorum því á Reykjavíkurborg og byggingaraðila að láta þegar í stað af fyrirhuguðum áformum sem mundu fyrirsjáanlega valda óbætanlegum spjöllum á þessum viðkvæma og söguhelga reit í hjarta höfuðborgarinnar,“ segir Friðrik. 

Tengdar fréttir

Reykjavíkurborg

Nýjar umsóknir um hótel í hverri viku

Innlent

Hótelið á Landssímareit verði opnað vorið 2019