Vilja að Gaflaraleikhúsið fái Bæjarbíó

Mynd með færslu
 Mynd:

Vilja að Gaflaraleikhúsið fái Bæjarbíó

22.04.2013 - 13:31
Meirihluti menningar-og ferðamálaráðs Hafnarfjarðar mælir ekki með því samningur við Kvikmyndasafn Íslands um umsjón Bæjarbíós verði framlengdur. Meirihlutinn vill að gengið verði til viðræðna við Gaflaraleikhúsið um rekstur leikhúss og um afnot og umsjón hússins.

Tillaga meirihlutans var lögð fram á fundi ráðsins í morgun. Þar kemur þó fram að lögð verði áhersla á að Kvikmyndasafni Íslands verði tryggð afnot af aðstöðu í húsinu til sýningarhalds. Meirihlutinn vill aftur á móti að Gaflaraleikhúsið fái húsið til afnota og sjái þar um rekstur leikhúss og leiklistartengdrar starfsemi.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat hjá við afgreiðslu tillögunnar sem var vísað áfram til bæjarráðs til umfjöllunar. Í bókun hans kemur fram að tillagan sé óraunhæf þar sem hvorki liggi fyrir raunhæf kostnaðaráætlun né samkomulag við núverandi notendur hússins.

Reglulega kvikmyndasýningar í Bæjarbíói hófust fyrir tólf árum síðan. Áður höfðu verið þar stakar sýningar. Gaflaraleikhúsið hefur haft til umráða leikhús að Strandgötu 50 í Hafnarfirði. Bæjarbíó var opnað sem kvikmyndahús í janúar árið 1945.