Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilhjálmur dró framboð sitt til baka

23.04.2019 - 09:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vilhjálmur Vilhjálmsson, fyrrverandi forstjóri HB Granda,  hefur dregið framboð sitt til stjórnar Eimskips tilbaka, en býður sig þess í stað fram til setu í varastjórn félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu sem send var Kauphöll Íslands í gær í tilefni af framhaldsaðalfundi sem fer fram á föstudaginn.

Aðalfundur félagsins fór fram 28. mars og átti þá að kjósa nýja stjórn. Í tilkynningu sem send var Kauphöll daginn eftir sagði að ekki hafi tekist að kjósa lög­mæta stjórn á aðal­fundinum. Því var ákveðið að efna til framhaldsaðalfundar.

Í framboði til stjórnar voru auk Vilhjálms þeir Lárus L. Blöndal hæstaréttarlögmaður, Óskar Magnússon, hæstaréttarlögmaður, Baldvin Þorsteinsson, framkvæmdastjóri hjá Samherja, Guðrún Blöndal og Hrund Rudólfsdóttur. Þær tvær síðastnefndu voru í raun sjálfkjörnar vegna laga um kynjakvóta. Þar sem frambjóðendur til stjórnar eru fimm og samsetning fullnægir ákvæðum laga og samþykkta félagsins um kynjahlutföll verður sjálfkjörið í stjórn.

Phil Quinlan hefur dregið framboð sitt til varastjórnar tilbaka. Samkvæmt samþykktum félagsins kýs aðalfundur fimm menn í stjórn.

Í framboði til varastjórnar eru: Erna Eiríksdóttir, Jóhanna á Bergi og Vilhjálmur Vilhjálmsson. Samkvæmt samþykktum félagsins kýs aðalfundur tvo í varastjórn. Þar sem þrjú eru í framboði til varastjórnar verður kosið til hennar á fundinum.

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV