Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vildi ráða öllu sjálf

Mynd: . / Forlagið og Sigrún Eldjárn

Vildi ráða öllu sjálf

29.06.2018 - 09:41

Höfundar

Það eru bráðum fjörutíu ár síðan fyrsta bók Sigrúnar Eldjárn, Allt í plati, kom út. Síðan hefur hún gert hátt í sextíu bækur – og hún kemur að öllum hliðum bókagerðarinnar.

Kannski má segja að Sigrún Eldjárn hafi slysast inn í bókabransann, í gegnum myndlistina. Hún útskrifaðist úr grafíkdeild Myndlista- og handíðaskólans. „Það var uppgangur í grafíklistinni á þessum tíma, margar sýningar haldnar og fólk keypti mikið af grafík. Þetta var svona viðráðanlegt, því þær eru yfirleitt í einhverju upplagi.“

Vildi ráða öllu sjálf

Fyrsta bókin sem hún myndskreytti var reyndar ljóðabók bróður hennar, Þórarins Eldjárns, en þá var hún enn í menntaskóla. Í kjölfarið myndskreytti hún bækur eftir Guðrúnu Helgadóttur, Njörð P. Njarðvík og Magneu frá Kleifum, en fljótlega segist hún hafa viljað „ráða öllu sjálf“, eins og hún orðar það, en fyrir utan að skrifa sögurnar og gera myndirnar, þá brýtur Sigrún líka bækurnar sínar um.

„Mig langaði að ráða persónunum, sögunni og söguþræðinum. Þetta er líklega bara svona félagslegur vanþroski,“ segir hún og hlær. „En mér finnst líka gaman að vinna með öðrum, það er ekki það.

En hvað finnst henni um sögnina að myndskreyta?

„Ég er náttúrlega ekkert að skreyta. Þetta er bara vani, þetta er alltaf kallað að myndskreyta. Mér finnst fólk vera myndhöfundar eins og rithöfundar. Myndirnar eru ekki skraut, beinlínis, þær eru bara partur af verkinu.“

Leiddist raunsæið

Upphaflega ætlaði hún bara að skrifa eina bók. Hún var uppfull af hugmyndum og útkoman var bókin Allt í plati sem fjallar um vinina Eyvind og Höllu. Sigrún las mikið af teiknimyndasögum í æsku og þau áhrif má merkja í þeirri bók. „Ég var svolítið að leika mér að hafa svona teikniseríuáhrif í þessum fyrstu bókum, með talblöðrum, kjaftablöðrum og hugsanablöðrum og fleira.“ Sagan gerist reyndar öll inni í hugsanablöðru.

Mynd með færslu
 Mynd: cc

„Mér leiddist svolítið þessar raunsæislegu bækur, þar sem er verið að kenna börnum að pissa í kopp og fara yfir götu og svona. Ég ætlaði alls ekki að gera svoleiðis bók.“

Myndirnar skipta miklu

Þrátt fyrir að ætlunin hafi í upphafi bara verið að gera eina bók varð raunin önnur og strax næsta ár kom út framhaldið, Eins og í sögu. Síðan hefur Sigrún ekki skrúfað fyrir sagnakranann og bókunum fer enn fjölgandi. Og þrátt fyrir að bækurnar hafi þykknað og sögurnar lengst, þá eru myndirnar jafnmikilvægar. „Ég vildi alltaf umfram allt hafa bækurnar uppfullar af myndum. Þær skipta alveg jafnmiklu máli og textinn.“

Í bókum hennar er mynd á hverri einustu opnu. Og jafnframt því sem blaðsíðunum fjölgar eykst auðvitað vinnan. „Jú, þetta er gríðarleg vinna og ég fæ sko ekkert mikið fyrir hana. “ Sigrún segist ekki leggja í að reikna út tímakaupið. „Ég held það sé ekkert sniðugt fyrir mig.“

Þarf að styðja skólabókasöfnin

Varðandi fjármagn sem lagt er í barnabækur segir Sigrún að sér finnist oft látið eins og það eigi að vera samkeppni höfundanna um peningana, um styrki, laun og verðlaun – og sölutölur. „En barnabókahöfundar eru auðvitað ekki að keppa, þeir ættu að vera saman í liði, því barn þarf ekki bara eina bók. Þær styðja hver aðra.“

Hún segir ennfremur að stjórnvöld mættu hlúa betur að barnabókahöfundum og leggur til að fjármagn verði lagt í að kaupa inn bækur á skólabókasöfn, því oft séu höfundar fengnir til að lesa upp úr bókunum sínum þar, en svo hafi börnin ekki aðgang að bókunum sjálf. „Það er ekkert víst að þau fái þær í jólagjöf, það er ýmislegt annað sem börnin fá í jólagjöf.“

Fær aðdáendabréf í pósti

Ljóst er að Sigrún er í góðum samskiptum við lesendur sína. Hún fær börn til að lesa yfir bækurnar áður en þær fara í prentun og svo fær hún stundum bréf frá þeim í pósti. Og hún segist svara hverju einasta bréfi. „Já, ég geri það. Það er alveg skylda.“

Mynd með færslu
 Mynd: Sigrún Eldjárn
Mynd úr bók eftir Sigrúnu sem er væntanleg í haust.

Sigrún á stóran lesendahóp hér á landi, en bækur hennar hafa ekki ratað út fyrir landsteinana. „Ég skil ekki af hverju alheimurinn hefur ekki kveikt á þessum bókum!“ segir Sigrún og hlær. Hún segist ekkert endilega vera að vinna með íslenskan veruleika frekar en annað, þó margir tengi eflaust íslenskt fuglalíf og þjóðbúninga við myndirnar hennar. En finnst henni leiðinlegt að bækurnar hennar hafi ekki verið þýddar? „Ja það hefur komið yfir mig við og við að hugsa, af hverju eru ekki bækurnar mínar úti um allan heim? En svo hef ég eiginlega ekki orkuna í þetta, ég geri margar bækur, skrifa og myndskreyti og finnst að einhver annar eigi að sjá um þetta. Stundum hef ég verið rosalega fúl yfir þessu, en stundum er mér alveg sama. Bara gott að íslensk börn lesi bækurnar,“ segir hún og brosir.

Æskan er sú sama

Og Sigrún er hvergi nærri hætt að skrifa og teikna – von er á nýrri sögu eftir hana í haust sem ber heitið Silfurlykillinn. „Þetta er saga sem gerist í framtíðinni, þegar öll tæknin sem við erum vön núna er ónýt. Þetta er eiginlega dystópía fyrir börn. Og það eru krakkar sem þurfa að fást við þetta.

Það er langt um liðið og þau vita ekkert hvað sími er, eða tölva. En bækurnar blífa.“ Enda segir Sigrún að það sé lítill munur á krökkum í dag og kynslóðunum fyrir tíma Internetsins og snjallsíma. „Ég veit þau eru að fást við ýmislegt annað en fyrir næstum 40 árum þegar ég byrjaði að skrifa, en ég held þetta sé voða svipað samt.“