Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Vildi ráða eiginkonu sína

30.09.2011 - 08:00
Stjórn Iceland Express kom saman klukkan átta í morgun vegna ákvörðunar Birgis Jónssonar, forstjóra félagsins, sem sagði upp störfum í gærkvöld. Tíu dagar eru síðan hann tók við starfinu.

Tvær yfirlýsingar um þetta mál bárust í gærkvöld, fyrst frá Birgi Jónssyni og síðan frá stjórn Iceland Express. Í yfirlýsingu Birgis kom fram að hann hefði sett fram ströng skilyrði fyrir ráðningu sinni, skilyrði um að hann fengi að hrinda í framkvæmd ákveðnum breytingum á rekstri fyrirtækisins. Þetta hefði ekki gengið eftir og því hefði hann hætt.

Rúmum klukkutíma síðar kom svo yfirlýsing frá fyrirtækinu sjálfu. Þar sagði að Birgir hefði komið með hugmyndir sem fólu í sér að hreinsa út hluta af yfirstjórn félagsins og ráða í þess stað fólk sér nákomið. Samkvæmt heimildum fréttastofu var þar um að ræða eiginkonu Birgis, sem hann ætlaði að ráða í nýja stöðu framkvæmdastjóra hjá fyrirtækinu.

Á það gat stjórnin ekki fallist. Í yfirlýsingu stjórnar segir að í samkomulagi við Birgi hafi ekki falist að honum yrði afhent eigendavald yfir Iceland Express. Í stjórn Iceland Express sitja Pálmi Haraldsson, stærsti eigandi fyrirtækisins, Skarphéðinn Berg Steinarsson og Sigurður G. Guðjónsson. Stjórnin kom saman klukkan átta, til að ákveða hver tekur tímabundið við starfi forstjóra. Í framhaldinu verður síðan hafin leit að nýjum forstjóra.