Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Vildi ná lengra með stjórnarskrána

14.03.2013 - 11:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á Alþingi fyrir stundu að hún hefði viljað ná miklu lengra með heildarendurskoðun á stjórnarskránni og telur að ekkert sé að vanbúnaði til að gera það.

Fyrir því sé ekki vilji hjá stjórnarandstöðunni og því verði að nást samkomulag um auðlindaákvæðið og beint lýðræði. Hún sagði að í sínum huga væri starfsáætlun Alþingis ekki heilög og þingmenn gætu vel unnið nokkra daga í viðbót til að klára þetta mál og önnur brýn mál.

Það var Vigdís Hauksdóttir sem spurði forsætisráðherra um stjórnarskrármálið og afstöðu forsætisráðherra til þingmála formanna stjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar og þá sér í lagi breytingar á tímaramma til að breyta stjórnarskrá. Forsætisráðherra sagði freistandi að fara eftir núgildandi stjórnarskrá og rjúfa þing á næsta kjörtímabili, sérstaklega ef Sjálfstæðisflokkur og Framsókn komist til valda.