Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vildi láta reka Sigurjón en málinu vísað frá

23.08.2018 - 19:53
Mynd með færslu
Sigurjón Þórðarson og svefntunna. Mynd: Samsett mynd - Facebook/Maxpixel
Sigurjón Þórðarson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra, verður ekki rekinn út starfi þrátt fyrir kröfu þar um frá eiganda gistiheimilis á Blönduósi. Eigandinn taldi að Sigurjón hefði misgert við sig og vildi bætur ofan á brottreksturinn en fékk ekki sínu framgengt: kæru hans til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála var í dag vísað frá nefndinni. Ástæðan er sú að kæran barst hálfu ári of seint.

Málið hófst þegar Heilbrigðiseftirlitið fór í eftirlitsferð á gistiheimilið Blönduból 14. júní 2016. Kvartanir höfðu borist um að hreinlæti væri þar ábótavant og samdægurs eftir heimsóknina barst eigandanum bréf frá eftirlitinu um að honum hefði verið veitt áminning og ákveðið að stöðva gististarfsemina. Honum var veittur frestur til 23. júní til að skila inn viðhaldsáætlun.

Afar upptekinn við að ganga frá svefntunnum

Eigandinn kærði þessa ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar 5. janúar 2017. Í rökstuðningi sagðist hann sérstaklega gera athugasemd við framgöngu heilbrigðisfulltrúans, sem var framkvæmdastjórinn Sigurjón.

Sigurjón hefði ekki tekið til greina að eigandinn hefði verið „afar upptekinn við að ganga frá svokölluðum svefntunnum og hafi því ekki verið búinn að taka til eftir síðustu næturgesti,“ eins og segir í úrskurði nefndarinnar. Á þeim forsendum krefðist hann skaða- og miskabóta og brottrekstrar Sigurjóns.

Leiðbeint um kæruleið en beið samt í hálft ár

Heilbrigðiseftirlitið mótmælti og benti á að eins mánaðar kærufrestur hafi verið löngu liðinn þegar kæran barst í janúar í fyrra. Eigandanum hafi verið veittar greinargóðar leiðbeiningar um kæruleiðina í tölvupósti 29. júní 2016 og auk þess ábendingar um hvert hann ætti að beina kvörtunum vegna starfsmannamála og framgöngu einstakra starfsmanna þess.

Undir þetta tekur úrskurðarnefndin og vísar kærunni frá, jafnvel þótt eigandinn segist í kærunni hafa verið í sambandi við umhverfisráðuneytið fram að kærunni, enda komi ekki fram á hvaða grundvelli þau samskipti hafi verið. Í úrskurðinum er tekið fram að uppkvaðning hans hafi dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem hafi verið skotið til nefndarinnar.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV