Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Vildi ekki túlka fyrstu tölur

30.06.2012 - 23:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Ólafur Ragnar var ekki reiðubúinn til að túlka fyrstu tölur í sjónvarpssal. Þær gæfu ákveðna vísbendingu og bentu til þess að honum yrði falið að þjóna þjóðinni næstu fjögur árin. „En mér finnst óeðlilegt að hefja umræðu um túlkun á niðurstöðu kosninganna núna.“

Ólafur er með yfirburðarstöðu eftir fyrstu tölur og sé landið framreiknað gæti hann fengið meir en fimmtíu prósent atkvæða. Þóra Arnórsdóttir kvaðst una sátt við sitt, það væri erfitt að fara fram gegn sitjandi forseta. En auðvitað hefði hún ætlað sér að vinna kosningarnar.

Herdís Þorgeirsdóttir sagði að fyrstu tölurnar væru staðfesting á því að kosningarnar væru á milli tveggja valdablokka í þjóðfélaginu og sagði að fylgi Ólafs kæmi frá stjórnarandstöðunni en fylgi Þóru frá stjórnarflokkunum.

Ég er ánægður með minn þátt  og það sem ég hef gert og sagt, voru fyrstu viðbrögð Ara Trausta eftir fyrstu tölur. Hann sagðist vera á besta aldri og vildi ekki loka neinum dyrum á framtíðina.

Andrea sagði niðurstöðuna ákveðin vonbrigði en þau fælu í sér von. Að fólkið væri að kjósa með auknu, beinu lýðræði og þar með málsskotsrétti forseta.