Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Vildi ekki refsa Rússum í Evrópuráðinu

11.04.2014 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslensku fulltrúarnir á þingi Evrópuráðsins voru ekki samstíga í afstöðunni til hvaða aðgerða ætti að grípa gegn Rússlandi vegna innlimunar Krímskaga. Karl Garðarsson greiddi atkvæði með því að svipta Rússa atkvæðisrétti en Ögmundur Jónasson var því andvígur.

Þingi Evrópuráðsins í Strassborg er nýlokið en ráðið fylgist með ástandi mannréttindamála í 47 aðildarríkjum. Deilur Rússa og Úkraínumanna og innlimun Krímskaga var í brennidepli á þinginu.

Karl Garðarsson, formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, segir að skoðanir hafi verið vægast sagt mjög skiptar um málið. „Bretar sóttu það fast að Rússum yrði vísað úr ráðinu. Á móti hótuðu Rússar því að ef þeim yrði vísað í burtu væri ekki sjálfgefið að þeir kæmu aftur. Þeir neituðu að mæta í gær þegar atkvæðagreiðslan var og mótmæltu þessu þar með og lýstu því yfir að atkvæðagreiðslan væri farsi.“

Mikill meirihluti þingmanna samþykkti þó á endanum að Rússar yrðu sviptir atkvæðaréttinum til næstu áramóta. Þá missa fulltrúar Rússlands sæti sitt í helstu nefndum og stofnunum ráðsins.

Ögmundur sagði nei

Karl var í hópi 140 þingfulltrúa sem samþykktu tillöguna en á meðal þeirra sextán sem lögðust gegn því að svipta Rússa atkvæðarétti var Ögmundur Jónasson. Brynjar Níelsson, sem einnig var á þinginu sem varamaður Unnar Brár Konráðsdóttur, virðist ekki hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslunni.

Ögmundur sagði í samtali við fréttastofu að tvö mál sem tengdust Úkraínu og Rússlandi hefðu komið til kasta ráðsins. Annars vegar var til umræðu skýrsla um Úkraínu sem að dómi Ögmundar var bæði einhliða og illa unnin og öllum breytingartillögum um hana hefði verið hafnað. Hann hefði greitt atkvæði gegn þeirri skýrslu.

Hvað hitt málið snerti væri Ögmundur þeirrar skoðunar að rangt væri að svipta Rússa atkvæðisrétti í Evrópuráðinu til áramóta. „Ég tel það ekki vera rétt, ég tel að það eigi að halda öllum ríkjum innan Evrópuráðsins og láta þau taka þar við gagnrýni, meðal annars frá mínum flokkahópi, sem gagnrýndi Rússa fyrir hvers kyns íhlutun í Úkraínu“

Ögmundur sagði að þótt hann væri í minnihluta hvað þessa skoðun varðar væri tóninn í ráðinu draugalegur endurómur úr fortíðinni. „Hann minnti á kalda stríðið. Orðavalið sem notað var og tjáningarmátinn var eitthvað sem maður heyrði fyrir 30-40 árum og það finnst mér ekki vera góðar fréttir."

Mál karlkyns sendinefndarinnar rifjað upp

Í fyrra voru Íslendingar sviptir atkvæðarétti á sumarþingi Evrópuráðsins vegna þess að íslenska sendinefndin var einungis skipuð körlum. Karl segir að þetta hafi komið til tals í tengslum við umræður um að beita Rússa sömu viðurlögum vegna Krímskagadeilunnar. "Nokkrir þingmenn vöktu máls á því í umræðum um málið áður en atkvæði voru greidd að það væri kaldhæðnislegt að Íslendingar hefðu misst atkvæðarétt sinn á þinginu síðasta sumar vegna þess að það vantaði konu í hóp þingmanna. Nú væri verið að rífast um það hvort sömu refsingu ætti að veita Rússum fyrir að ráðast inn í annað land. Mönnum þótt mjög undarlegt að leggja ætti þetta tvennt að jöfnu."

[email protected]