Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vildi ekki nota tap eiginkonunnar í baráttunni

18.03.2016 - 11:29
Mynd með færslu
 Mynd: Forsætisráðuneytið
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að það hafi hvarflað að sér í kosningabaráttunni 2013 að ræða um að hann væri að berjast fyrir því að tekin yrði upp stefna í uppgjöri við kröfuhafa sem myndi auka á tap eiginkonu sinnar af bankahruninu. Að athuguðu máli hafi hann séð að það væri ekki forsvaranlegt og hafi skammast sín fyrir að hafa látið sér detta í hug að nota fjárhagslegt tap eiginkonu sinnar í pólitískri baráttu.

Þetta kemur fram í pistli sem Sigmundur birtir á vefsíðu sinni, undir yfirskriftinni „Nokkur orð um eiginkonu mína“. Hann segir að nú þegar fjármál eiginkonu hans hafi verið gerð að opinberu umræðuefni finnist honum rétt að gera grein fyrir þessu.

Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona hans, lýsti kröfum upp á um hálfan milljarð króna í föllnu bankana, í gegnum félag sitt Wintris Inc. sem er skráð í skattaskjólinu Bresku-Jómfrúreyjum. Hún segist hafa greitt alla skatta af starfsemi félagsins.

Sigmundur kemur konu sinni til varnar í pistlinum, en gerir ekki sérstaklega grein fyrir því hvaða ástæður lágu að baki því að Anna Sigurlaug ákvað að setja arf sinn í aflandsfélag . Hann segir að stjórnmálaátök samtímans einkennis oft af því að „farið sé í manninn“ fremur en málefnið.

„Mér er nokkuð sama hvernig hjólað er í mig. Ég er ýmsu vanur í pólitískri umræðu. En menn hljóta að geta fallist á að það sé með öllu ólíðandi að ráðist sé á ættingja eða maka stjórnmálamanna til þess eins að koma á þá höggi.“

Sigmundur segist hafa haft þá meginreglu að ræða ekki málefni eiginkonu sinnar eða ættingja hennar í fjölmiðlum og hyggist halda sig við það nema grundvallarbreyting verði á íslenskum stjórnmálum.

„En þegar menn leggjast svo lágt að velta því upp hvort kona mín eigi ekki að teljast til hrægamma fyrir að hafa tapað peningum á bankahruninu get ég ekki látið það óátalið. Enginn á slíkar ákúrur síður skilið en hún.“

Sigmundur segir að Anna Sigurlaug hafi aldrei keypt kröfur eftir hrun, þvert á móti. Hún hafi tapað á því sem hún lánaði bönkunum fyrir hrun.

Sigmundur segir að umræðan um fjármál eiginkonu hans hafi einkum leitt tvennt í ljós. Í fyrsta lagi þá staðreynd að Anna Sigurlaug hafi greitt alla skatta af eignum sínum og ekki nýtt tækifæri til að fela nokkurn hlut. Hún hafi reyndar ekki einu sinni nýtt heimildir laga til að fresta skattgreiðslum. Í öðru lagi að hún hafi í eigin fjármálum eins og öðru tekið hagsmuni annarra fram yfir sína eigin. Í niðurlagi pistilsins skrifar Sigmundur:

„Og varðandi hrægamma: Hrægammar eru þeir sem koma aðvífandi og reyna að gera sér mat úr ógæfu annarra og kroppa þá inn að beini. Hvað er þá andstæða hrægamma? Það eru þeir sem tapa en eru samt til í að fórna meiru sjálfir í þágu annarra. Vonandi skilja þeir sem þetta lesa hvers vegna mér þykir lítið til þeirra koma sem kenna konu mína við hrægamma.“

Forsætisráðherra hefur ekki enn orðið við ítrekuðum óskum fréttastofu um viðtal. Ný beiðni var lögð inn hjá aðstoðarmanni hans í morgun.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV