Vilborg bæði glöð og döpur - viðtal

Mynd með færslu
 Mynd:

Vilborg bæði glöð og döpur - viðtal

18.01.2013 - 10:37
Vilborg Arna Gissurardóttir pólfari segist vera mjög glöð og ánægð með að hafa náð takmarki sínu að ganga á Suðurpólinn. Vilborg komst á pólinn um klukkan ellefu í gærkvöldi. Hún tjaldaði þar og svaf vel í nótt.

Vilborg hefur á síðustu 60 dögum gengið 1140 kílómetra, oft við mjög erfiðar aðstæður, mótvind og brunagadd. Kristján Sigurjónsson fréttamaður ræddi við í gegnum gervihnattasíma hana upp úr klukkan tíu í morgun. 

Var gríðarlega spennt

„Kvöldið áður en ég lagði af stað hafði ég útsýni yfir Suðurpólinn og það veitti mér mikinn styrk og innblástur og ég var mjög spennt að fara að sofa,“ segir Vilborg.“ Hún hafi því vaknað snemm, gríðarlega spennt yfir að takast á við daginn.

„En þegar ég lít út þá var komin snjókomma og lítið skyggni þannig að ég vissi strax að það myndi verða mjög krefjandi að ganga í slíkum aðstæðum,“ segir Vilborg.

„Gott að sjá lokatakmarkið“

Upp úr klukkan tvö hafi svo farið að rofa til. „Og það munaði ótrúlega miklu og gott að sjá lokatakmarkið og svona gekk þetta frameftir degi og ég var komin á pólinn fimm til sex tímum seinna.

Eitt og eitt tár féllu

Aðspurð hvernig henni hafi liðið þegar takmarkinu var náð segir Vilborg: „Það er ekki hægt að neita því að síðustu metrana þá fer maður að hugsa og miklar tilfinningar sem bærast með manni. Maður er rosalega glaður en á sama tíma pínulítið sorgmæddur yfir því að þetta sé að vera búið en um leið ofboðslega fegin. Það komu eitt og eitt tár og svo brosti ég allan hringinn,“ segir Vilborg.

Stórkostleg tilfinning að ná takmarkinu

Gangan í gær tók rúmar níu klukkustundir. Vilborg segir að sér líði mjög vel núna og gott sé að geta slappað af í tjaldinu.  „Mér líður alveg ofboðslega vel. Þetta er alveg stórkostleg tilfinning að vera komin á áfangastað. Það er mjög skrýtið að vera ekki á skíðum heldur geta bara slappað af í tjaldinu. Ég held það taki nokkra daga að átta sig almenninglega á þessu og ná sér niður á jörðina“ segir hún.

Hlakkar til að koma heim

Enn er nokkuð í að Vilborg komi til landsins en hún flýgur frá Suðurskautinu þann 22. janúar og verður komin til Íslands þremur til fjórum dögum seinna. Vilborg segist hlakka til:„Já, ég er orðin mjög spennt og hlakka til að hitta fjölskylduna mína og vini og gera alls konar hversdagslega hluti“, segir Vilborg.

Forsetahjónin sendu Vilborgu heillaskeyti

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur sent Vilborgu Örnu heillaóskaskeyti. Þar segir að hann og Dorrit óski Vilborgu til hamingju með einstakt afrek. Íslendingar samgleðjist innilega. Ferðin verði vonandi til þess að auka vitund um mikilvægi heimskautanna fyrir loftslag jarðar og framtíðarheill mannkyns. 

Tengdar fréttir

Innlent

Vilborg komin á Suðurpólinn

Innlent

Vilborg Arna nálgast Suðurpólinn

Mannlíf

Vilborg búin að ganga 700 kílómetra

Fólk í fréttum

Vilborg Arna búin að ganga þriðjung ferðar