Vilborg á Pólinn í dag

Mynd með færslu
 Mynd:

Vilborg á Pólinn í dag

17.01.2013 - 09:36
Vilborg Arna Gissurardóttir nær að öllum líkindum langþráðu takmarki sínu í dag að vera fyrsti Íslendingurinn sem gengur einn síns liðs á Suðurpólinn samtals um 1140 km.

Vilborg gekk tæplega 20 km í gær og á því eftir um 18 km á Pólinn. Hún hefur því að líkindum sofið sína síðustu nótt í göngutjaldinu sem verið hefur hennar næturstaður í hálfan annan mánuð, segir í fréttatilkynningu. Talið er að Vilborg geti náð Pólnum um klukkan 15 að staðartíma, klukkan 18 að íslenskum tíma. 

Síðustu dagar hafa tekið á Vilborgu. Veður hefur ekki verið gott og aðstæður óhagstæðar. Þá hefur Vilborg glímt við magakveisu og lítilsháttar kal á lærum. Vegna þessa hefur hún þurft að ganga tíu dögum lengur en hún lagði upp með. 

Markmið Vilborgar er að safna fé fyrir styrktarfélag Kvennadeildar Landspítalans. Söfnunin hefur tekið kipp á síðustu dögum. 5 milljónir hafa safnast.

Enn er hægt að heita á Vilborgu: númer söfnunarinnar er 908 15 15 og dragast þá 1500 kr af símreikningi. Einnig er hægt að heita á spor hennar með frjálsum framlögum á heimasíðu Vilborgar www.lifsspor.is.

Komist Vilborg á Suðurpólinn í dag, mun hún gista eina nótt á Pólnum og verður svo flutt með flugi á Union Glacier. Þar er að finna bækistöðvar langflestra Suðurpólsfara. Búast má við að Vilborg dvelji í Union Glacier í nokkra daga.

Útlit er fyrir að Vilborg Arna komi loks heim til Íslands um aðra helgi.