Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Víkurskarðið kvatt: „Ég borga bara og brosi“

04.01.2019 - 09:51
Mynd:  / 
Sérfræðingur í samfélagslegum áhrifum samgangna telur að Vaðlaheiðargöngin komi til með að efla Norðurland eystra og leiða til aukinnar samvinnu milli sveitarfélaga, jafnvel sameiningar. Íbúi í Mývatnssveit segist orðlaus yfir ágæti ganganna og skólastjóri á Laugum vonar að þau verði til þess að nemendum við skólann fjölgi. 

Þegar orðið eitt atvinnusvæði

Margir íbúar sveitarfélaga austan Vaðlaheiðar hafa um árabil sótt vinnu eða þjónustu til Akureyrar og þurft að reiða sig á að Víkurskarðið sé fært. Það liggja ekki fyrir nákvæmar tölur um hversu margir úr sveitarfélögunum austan heiðarinnar sækja vinnu til Akureyrar en nýleg könnun Byggðastofnunar bendir til þess að um helmingur íbúa í Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi sæki vinnu út fyrir bæinn sinn og fjórðungur á Húsavík og Tjörnesi. Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur í samfélagslegum áhrifum samgangna við Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri segir að svæðið hafi í raun verið orðið eitt atvinnusvæði áður en göngin komu til sögunnar. 

„Það virðist vera þannig að samfélagið sé allt að gírast í þá áttina að gera ráð fyrir því að það sé hægt að komast hvenær sem er á milli staða. Við erum farin að skipuleggja samfélagið okkar í stærri þjónustueiningum. Það er eitt sýslumannsembætti fyrir stóran landshluta eins og Norðurland eystra og Vestfirði, svipað með lögregluembætti og heilbrigðisembætti. Samt eru samgöngurnar ekki endilega þannig að það sé hægt að stóla á að það sé alltaf hægt að fara,“ segir Hjalti.  

Mynd með færslu
 Mynd:
Hjalti Jóhannesson.

Auka lífsgæði kvenna meira

Hjalti hefur unnið greiningar á samfélagslegum áhrifum Vaðlaheiðarganga, þær sýna meðal annars að það olli þriðjungi íbúa miklum kvíða og óþægindum að þurfa að ferðast yfir Víkurskarð að vetrarlagi. Skarðið olli konum mun meiri kvíða en körlum og þær forðuðust frekar að aka um það. Þá voru konur austan Vaðlaheiðar óánægðari með stöðu atvinnumála þar, göngin virðast því auka lífsgæði kvenna meira en karla. 

Stór-Akureyrarsvæðið 

Nú þarf ekki lengur að hafa áhyggjur af Víkurskarðinu og Hjalti segir að göngin þjappi svæðinu saman. „Við erum komin með samfellt svæði frá Siglufirði með góðum samgöngum inn til Akureyrar og svo austur um til Húsavíkur og Mývatnssveitar. Við erum með stórt samhangandi svæði þar sem íbúar búa í innan við hundrað kílómetra fjarlægð frá ákveðinni miðju sem er Akureyri.“

Er Stór-Akureyrarsvæðið, ef svo má segja, þá orðið meira mótvægi við höfuðborgarsvæðið?  

„Já, hvort sem við tölum um mótvægi, valkost eða hvað það nú heitir þá eflir þetta svæðið sem heild og menn hefur dreymt um það lengi að nota samgöngur til að þjappa svona svæðum saman. Það er hægt að sækja sér atvinnu þvers og kruss á þessu svæði og við erum að sjá að þannig fúnkerar höfuðborgarsvæðið að verulegu leyti með þá svæðinu upp til Borgarness, allavega upp á Akranes og austur um fjall og um Reykjanesið.“ 

Gæti dregið frekar úr sérhæfðri þjónustu 

Mynd með færslu
 Mynd: Hörður Jónasson
Húsavíkurkirkja

Síðastliðin ár hefur þjónusta á Húsavík dregist saman og íbúar í Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppi og Norðurþingi þurft að sækja í auknum mæli til Akureyrar, til dæmis til að fæða börn. Hjalti segir að göngin geti orðið til þess að það draga frekar úr sérhæfðri þjónustu austan Vaðlaheiðar og þrátt fyrir að íbúar hafi langflestir verið hlynntir göngunum höfðu viðmælendur Hjalta áhyggjur af því að greiðara aðgengi að þjónustu á Akureyri græfi undan þjónustu á Húsavík. „Þetta er bara þessi þróun sem er að eiga sér stað. Göngin gætu hraðað á þessu, ég geri nú alveg ráð fyrir því. Hins vegar geta alveg skapast tækifæri fyrir austan vegna þess að það er 25 þúsund manna markaður hér í Eyjafirði sem verður þá opnari fyrir ýmislegt sem gæti verið í boði fyrir austan, nefnum sem dæmi eitthvað í ferðaþjónustunni eins og sjóböðin sem var verið að stofnsetja á Húsavík og annað slíkt.“ Þá nefnir hann að Ljótu hálfvitarnir geti kannski bara troðið upp á Húsavík og stólað á að Akureyringar komi þangað, þeir þurfi ekki endilega að spila á Græna hattinum.  

Skólinn gæti styrkst

Hann býst ekki við því að það dragi frekar úr þjónustu á Sjúkrahúsinu á Húsavík en segir að skólahald austan Vaðlaheiðar gæti breyst. „Það er eitthvað sem gæti gerst í framtíðinni ef fólk fer að setja sig niður í auknum mæli austan Vaðlaheiðar þá verði það barnafjölskyldur að einhverju leyti sem þá geti rennt styrkari stoðum undir skólahald í Þingeyjarsveit.“ 

Samstarf hljóti að aukast

Hjalti segir að Norðurland eystra sé eini landshlutinn þar sem starfi tvö atvinnuþróunarfélög, annað í Eyjafirði og hitt í Þingeyjarsveit, hann vonar að það breytist. Ákveðinni hindrun hafi verið rutt úr vegi, almennt hljóti samstarf þvert á sveitarfélög að aukast með tilkomu ganganna og aldrei að vita nema það leiði síðar til sameininga.

Jafnlangt til Akureyrar og Húsavíkur

Spegillinn fór göngin og ræddi við fólk austan Vaðlaheiðar um þessa samgöngubót. Sigurbjörn Árni Arngrímsson, skólastjóri Framhaldsskólans á Laugum, segir göngin hafa gríðarleg áhrif.

Mynd með færslu
 Mynd:
Framhaldsskólinn á Laugum.

„Þau stytta leiðina til Akureyrar það mikið að það er orðið álíka langt þangað og til Húsavíkur og auðveldara fyrir okkur að sækja verslun, þjónustu, íþróttir og annað inn til Akureyrar. Einnig eykur þetta möguleikann á að fólk geti búið hér í Þingeyjarsveit og sótt vinnu til Akureyrar.“ 

Göngin skipti alla í sveitinni máli

Mynd með færslu
 Mynd:
Mývatn.

Ólöf Hallgrímsdóttir er hæstánægð með göngin. Hún er bóndi og framkvæmdastjóri Vogafjóss í Mývatnssveit, þar er bæði veitingastaður og gistihús. Maðurinn hennar hélt upp á tímamótin með því að aka til Akureyrar kvöldið sem göngin voru opnuð, þar fékk hann sér eina pylsu, og svo ók hann til baka. „Ég fór svo daginn eftir og bara stórkostlegt, ég á bara eiginlega engin orð, þetta er bara stórkostlegt. Við erum með ferðaþjónustu þannig að það breytir miklu fyrir okkar gesti að þurfa ekki að fara Víkurskarðið. Ég hef sjálf lent í gríðarslæmum veðrum á Víkurskarði, meira að segja þegar ég var ófrísk af tvíburunum mínum þá lentum við út af þar og það er ekki skemmtileg lífsreynsla. Ég tel að þetta skipti bara alla máli.“

Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Víkurskarðið rutt.

Vaðlaheiðargöng efli öryggi í rekstri ferðaþjónustu yfir vetrartímann enda hafi Víkurskarðið verið helsti farartálminn, Mývatnsheiði og Fljótsheiði séu sjaldan ófærar. 

Gott að sleppa við hægagang á Svalbarðsströnd

Leiðin til Akureyrar styttist um 16 kílómetra. Sigurbjörn segir að það muni ekki bara um að sleppa við Víkurskarðið heldur líka Svalbarðsströndina. „Þar er mikið af blindhæðum og afleggjurum og umferðin fór oft mjög hægt þar, maður gat orðið mjög pirraður á að vera þar í langri röð og komast ekki lönd né strönd og allir á sextíu til sjötíu.“ 
Ólöf segir atvinnuástandið í Mývatnssveit nokkuð gott og býst ekki við því að sveitungar hennar fari að sækja vinnu til Akureyrar í stórum stíl. „En klárlega öll þjónusta og bara mikið meira öryggi, aðalsjúkrahúsið er náttúrulega á Akureyri og þangað leitum við ef eitthvað er.“ 

Geta tekið strætó í skólann frá Akureyri

Mynd með færslu
 Mynd:
Vaðlaheiðargöng.

Sigurbjörn á von á því að göngin verði til þess að nemendum við Framhaldsskólann á Laugum fjölgi og námsframboð batni, nemendur eigi auðveldara með að sækja verknám og tónlistarnám til Akureyrar. Strætósamgöngur breytast líka, þannig verða þrjár til ferðar milli Lauga og Akureyrar á dag. „Þetta gefur líka þann möguleika, af því við erum með öðruvísi skóla heldur en skólarnir á Akureyri og Tröllaskaga að nemendur sem eru á Akureyri og vilja stunda nám í því kerfi sem við erum með þeir geta það núna en þurfa ekki að koma hingað og búa, þau geta bara tekið strætó á morgnana og aftur heim á kvöldin þannig að nemendum gæti vissulega fjölgað, ég hef ekki trú á að þeim fækki, það er svo gaman hjá okkur.“ 

Sætta sig við kostnaðinn

En hvað finnst þeim um kostnaðinn? Stakt gjald fyrir fólksbíl er 1500 krónur en með því að kaupa hundrað ferðir fæst farið á 700 krónur. 

„Veistu það að mér finnst þetta ekkert hátt gjald, ég er bara alveg tilbúin að borga það, mér finnst fylgja þessu svo miklir kostir,“ segir Ólöf. 

Sigurbirni finnst verðið fullhátt. Honum reiknast til að það kosti um 600 krónur að aka skarðið. „Við hefðum viljað sjá þetta í svona fjögur hundruð krónum, átta hundruð fram og til baka. Ég hef samt ekki trúa á því að menn muni mikið þvælast yfir Víkurskarðið hér eftir, kannski í góðu veðri á sumrin en ég sé ekki fyrir mér á veturna að ég sé að fara þarna upp, ég borga bara hitt og brosi.“