Rannsóknirnar sýna að kona frá víkingaöld, sem fannst í gröf á Fjóni, á ættir að rekja til indiána Norður-Ameríku. Við rannsókn fornleifafræðinga á grafstæði frá árunum 800 til 1100 nærri Otterup í Galgedil á Fjóni kom m.a. í ljós gröf ungrar konu. Sjá mátti af geislavirku strontíum í tönnum hennar að hún var uppalin í Danmörku en styrkur strontíum sem upphaflega kemur úr drykkjarvatni og er mismunandi frá einum stað til annars, segir til um hvar fólk býr fyrstu ár ævinnar. Þá kom í ljós að erfðaefni í beinunum var af gerðinni haplotypu X2 c sem er sjaldgæft í Evrópu og finnst ekki í Asíu en er algengt í Norður-Ameríku.
Vísindamenn telja því að konan sé ekki ættuð frá Skandinavíu, annarrar kynslóðar innflytjandi í Danmörku. Hún sé líklegast komin frá Vínlandi þangað sem Íslendingar og Grænlendingar af íslenskum ættum sigldu. Gröf konunnar lá í norðaustur og suðvestur og með henni hafði verið lagður hnífur. Það telur Sören Michael Sindbæk, sem stýrir rannsókninni, benda til að gröfin sé frá heiðnum tíma.