Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vikið úr fulltrúaráði Sjálfstæðisfélagsins

14.06.2018 - 07:00
Frá þingsetningu 6. desember 2016.
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Páli Magnússyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, hefur verið vikið úr fulltrúaráði Sjálfstæðisfélagsins í Vestmannaeyjum vegna „fordæmalausrar framgöngu“ Páls í nýliðnum sveitastjórnarkosningum. Fulltrúaráðið segist ekki geta litið á þingmannin sem trúnaðarmann Sjálfstæðisflokksins og hefur óskað eftir fundi með forystu flokksins vegna „þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin.“

Mbl.is greindi fyrst frá og hefur eftir Jarli Sigurgeirssyni, formanni fulltrúaráðsins, að fundurinn í gærkvöld hafi verið haldin í þeim tilgangi að taka til í fulltrúaráðinu þar sem nokkrir hafi verið í framboði eða stutt klofningsframboðið Fyrir Heimaey.

Jarl segir að þetta sé í fyrsta skipti sem þingmaður úr heimabænum sé ekki fulltrúaráði „enda er þetta eflaust í eina skipti í sögu stjórnmála sem oddviti flokksins styður ekki sinn flokk í sveitarfélaginu.“

Á vef Fréttablaðsins er haft eftir Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, að hann muni ræða þetta mál við sitt fólk en hann vildi ekki tjá sig neitt frekar. Hvorki mbl.is né Fréttablaðið náðu tali af Páli. 

Sjálfstæðisflokkurinn tapaði meirihluta sínum í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum á aðeins fjórum atkvæðum. Flokkurinn hefur kært úrslit kosninganna en klofningsframboðið Fyrir Heimaey og Eyjalistinn mynduðuð meirihluta eftir kosningarnar. Í frétt Fréttablaðsins fyrir um viku var fullyrt að Páll hefði staðið með Írisi Róbertsdóttur, oddvita Fyrir Heimaey, og ekki veitt framboði Sjálfstæðisflokksins neinn stuðning. 

Elliði Vignisson, fyrrverandi bæjarstjóri Vestmannaeyja, sagði í viðtali við Visir.is skömmu eftir að úrslit kosninganna lágu fyrir að það hefði munað um fyrir flokkinn að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki notið stuðnings Páls. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV