Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vikan sem FIFA fór á hliðina

epa04775282 The chair of FIFA President Joseph Blatter during a press conference following the FIFA Executive Committee meeting in Zurich, Switzerland, 30 May 2015. Blatter was elected FIFA president for a fifth term during the 65th FIFA Congress on 29
 Mynd: EPA - KEYSTONE

Vikan sem FIFA fór á hliðina

05.06.2015 - 14:15
Kerfisbundin spilling virðist hafa grasserað innan Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA síðustu áratugi. Æðstu yfirmenn FIFA eru sakaðir um spillingu, mútuþægni og skattsvik en rannsóknin beinist meðal annars að fráfarandi forseta, Sepp Blatter.

Rannsókn bandaríkjastjórnar á hneykslismálum innan FIFA nær nokkur ár aftur í tímann. Aðgerðir alríkislögreglunnar í tengslum við rannsóknina komu fyrst fyrir almenningssjónir þegar fulltrúar alríkislögreglunnar FBI og ríkisskattstjóra veittu Chuck Blazer, einum af æðstu yfirmönnum FIFA, eftirför niður fimmtu breiðgötu á Manhattan. Blazer hóf samvinnu við yfirvöld sem endaði með því að rannsókn hófst á því sem dómsmálaráðherra Bandaríkjanna kallar hömlulausa, kerfisbundna og djúpstæða spillingu innan FIFA. Blazer virðist hafa komið upp um spillingu starfsfélaga sinna sem voru handteknir fyrir rúmri viku.