Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vigdís: „Viljum við svona samfélag?“

11.05.2016 - 08:37
Mynd með færslu
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis. Mynd: RÚV
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, segir upplýsingarnar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, birti á vef sínum í morgun, vera einsdæmi. Hann hafi tekið skref sem enginn annar stjórnmálaleiðtogi hafi áður gert - að birta fjárhagsupplýsingar maka. „Viljum við svona samfélag?“ spyr þingmaðurinn.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu Vigdísar í morgun. Þar segir hún að birting upplýsinganna sýni hvert umræðan sé komin og spyr hvort þetta samrýmist friðhelgi einkalífsins, heimilis eða fjölskyldu sem sé stjórnarskrárvarið.

Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, birti upplýsingar úr skattaframtölum sínum og eiginmanns síns fyrir árin 2016 og 2015 Þar komu meðal annars fram upplýsingar um tekjur þeirra, sparnaðarreikning og lán.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, birti upplýsingar um skattgreiðslur sína á vef flokksins. Þar komu meðal annars fram eignir formannsins og tekjur eiginmanns hennar fyrir árið 2015.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, birti yfirlit frá endurskoðanda sínum yfir skattskyldar tekjur og greiddan tekju-og fjármagnstekjuskatt. 

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, birti upplýsingar um tekjur og eignir sínar og eiginkonu á vef sínum. Þar komu meðal annars fram upplýsingar um skuldir þeirra og eignir. 

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, birti upplýsingar um tekjur sínar frá árinu 2010 til 2015. Í yfirlýsingu hans komu einnig fram eignir og skuldir hans og eiginkonu hans en þar sagði meðal annars að hún væri launamaður hjá Pennanum og ætti engar séreignir né aðra hagsmuni.