Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vigdís Hauksdóttir á von á stórsigri Sigmundar

24.09.2016 - 08:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vigdis Hauksdóttir, Framsóknarkona, segist eiga von á stórsigri Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í formannskjöri Framsóknarflokksins sem fram fer næstu helgi. Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, lýsti því yfir í gær að hann myndi bjóða sig fram gegn Sigmundi Davíð.

„Ég bara fagna því að það sé komin niðurstaða í þetta mál og við erum að fara inn í flokksþing þar sem eru alvöru formannskosningar. Þannig að ég fagna því að Framsóknarmenn fái að velja sér foringja. En ég veit það og er þess fullviss að Sigmundur Davíð kemur til með að vinna þennan bardaga glæsilega,“ segir Vigdís. 

Og af hverju ertu svona viss um það?

„Hann nýtur mikils trausts í flokknum og hefur verið ótrúlega framsýnn fyrir hönd þjóðarinnar og komið hér mörgum stórum málum í gegn sem var nú ekki mikil bjartsýni með hjá andstæðingum hans. Þannig að við einfaldlega höfum ekki efni á því að fórna okkar besta manni,“ segir Vigdís.

Í frétt Morgunblaðsins í dag kemur fram að almennt séu viðbrögð þingmanna Framsóknarflokksins varfærnisleg. Flestir telji að formannskjörið verði til þess að sefa ólgu sem nú er í flokknum en fæstir treysti sér til að lýsa yfir eindregnum stuðningi við annan hvorn frambjóðendanna.

Sveinbjörn Eyjólfsson, forstöðumaður Nautastöðvarinnar á Hvanneyri, dró formannsframboð sitt til baka í gær. Hann hafði gagngert boðið sig fram í því skyni að hvetja Sigurð Inga til að gefa kost á sér.