
Vígamenn sviptir dönskum ríkisborgararétti
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði í síðustu viku að hætta væri á að vígamenn með danskt ríkisfang reyndu að komast aftur til Danmerkur. „Þetta er fólk sem hefur snúið baki við Danmörku og beitt ofbeldi gegn lýðræði og frelsi okkar," hefur Deutsche Welle eftir henni. Hún sagði þá ógna öryggi Dana.
Ráðherra innflytjendamála var veitt vald til þess að svipta vígamenn ríkisborgararétti án dóms og laga. Sá sem missir réttindin fær fjórar vikur til að áfrýja ákvörðuninni. Frumvarpið naut stuðnings flestra flokka, eftir að breytingatillaga um að það renni út í júlí 2021 var samþykkt. Þingið getur framlengt lögin ef þörf þykir.
Dönsk yfirvöld telja að rúmlega 150 danskir ríkisborgarar hafi farið til Íraks og Sýrlands til að berjast með vígahreyfingunni síðan árið 2012. Um 27 eru enn taldir vera á átakasvæðum og 12 í varðhaldi. Óvíst er hversu margir þeirra hafa tvöfalt ríkisfang.