Viðvarandi netsambandsleysi í sveitum

30.03.2016 - 17:25
Netsambandsleysi bæja í dreifbýli stendur nútímalandbúnaði fyrir þrifum. Þetta segir bóndi í Reykhólasveit. Margir bændur búa við viðvarandi lélegt netsamband.

Sauðfjárbúið Hríshóll í Reykhólasveit er annað tveggja búa sem fékk nýlega landbúnaðarverðlaun. Líkt og mörg önnur bú glíma ábúendur við viðvarandi netsambandsleysi sem getur reynst heftandi í nútímalandbúnaði: „Við þurfum að uppfylla ýmis skilyrði sem þarf að uppfylla á rafrænu formi. Til að uppfylla gæðastýringu og fá greiðslu frá ríkinu. Og þetta þurfum við að skrá samviskusamlega niður. Það getur reynst mjög heftandi þegar internetsamband er lélegt eins og það er hér. Hvernig er það búið að vera undanfarna daga? Það er búið að vera mjög lélegt, maður kemst ekki í tölvupóst eða neitt,“ segir Vilberg Þráinsson, sem er einnig í sveitarstjórn Reykhólahrepps. 

Vilberg hefur áhyggjur af því að ekki sé nægjanlegu fé veitt í nettengingu. Nýlega komust áform um annan áfanga hringtengingar ljósleiðara á Vestfjörðum í uppnám þegar einungis eitt tilboða barst, langt yfir kostnaðaráætlun. Nú hefur þó náðst samkomulag um að Neyðarlínan mun sjá um verkefnið í samstarfi við Mílu. 

„Gefnir ákveðnir peningar en þeir peningar duga engan veginn til að klára það. En vonandi klárast það mjög fljótlega. Og kindurnar taka undir. Þær eru alveg sammála þessu,“ segir Vilberg. 

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi