Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Viðurkenndi morð á framkvæmdastjóra SÞ

Dag Hammarskjöld. - Mynd: UN/DPI / Wikimedia Commons

Viðurkenndi morð á framkvæmdastjóra SÞ

15.01.2019 - 07:48

Höfundar

Orrustuflugmaður viðurkenndi að hafa drepið Dag Hammarskjöld, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, ef marka má nýja heimildarmynd sem verður frumsýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni eftir hálfan mánuð. Hammarskjöld lést í dularfullu flugslysi í Afríku 1961 en hið hörmulega flugslys eða tilræði hefur aldrei verið upplýst að fullu.

Dag Hammarskjöld var annar framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna frá upphafi, frá 1953 þar til hann lést 18. september 1961. Hann er af mörgum talinn merkasti framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og John F. Kennedy Bandaríkjaforseti sagði hann mesta stjórnmálaskörung aldarinnar. 

Truman sagði að hann hefði verið drepinn

Haustið 1961 var hann í friðarferð í Kongó að reyna að tryggja vopnahlé á milli stríðandi fylkinga. 18. september brotlenti Douglas DC-6 vél hans. Allir um borð létust, Dag Hammarskjöld  og fimmtán aðrir. Margt er á huldu um aðdraganda þess en margt benti til þess að vélin hefði verið skotin niður - án þess að tekist hafi að færa fullnægjandi sönnur á það. Harry Truman, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, sagði að Hammarskjöld hefði verið við það að ná árangri þegar hann var drepinn og bað menn að taka vel eftir þegar hann sagði að hann hefði verið drepinn. Margt hefur verið rætt og ritað um þennan hörmulega atburð og enginn skortur verið á sögusögnum og samsæriskenningum. 

Leyniþjónustur, námufélag og sérsveit

Flestar ganga kenningarnar út á að vélin hafi verið skotin niður og að Hammarskjöld hafi verið ráðinn af dögum. Að tilræðinu hafi staðið mismunandi samsetningar af leyniþjónustum Bandaríkjanna og Bretlands, risastóru belgísku námufélagi og sérsveit frá Suður-Afríku sem áttu að óttast hagsmuni sína ef Kongó yrði sjálfstætt fyrir tilstuðlan framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. 

Vélin alelda áður en hún hrapaði

Árið 2015 skipaði þáverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, óháða rannsóknarnefnd. Í skýrslu hennar kemur fram að vélin hafi verið alelda áður en hún brotlenti og að önnur flugvél hefði verið á svæðinu sem og leyniþjónustumenn. Sameinuðu þjóðirnar eru enn að rannsaka málið, nærri sextíu árum síðar. 

Myndin á eftir að vekja mikla eftirtekt

Heill her rannsóknarblaðamanna hefur árum saman unnið að heimildarmynd um flugslysið eða morðið á Dag Hammarskjöld undir forystu danska leikstjórans Mads Brügger og sænska rannsóknarblaðamannsins Göran Björkdahl. Afraksturinn verður frumsýndur á Sundance kvikmyndahátíðinni eftir hálfan mánuð. Niðurstaða rannsóknarinnar ku vera mjög afgerandi og líkur á að þær eigi eftir að vekja mikla eftirtekt. Breska blaðið Guardian birtir brot af niðurstöðu myndarinnar. Flugmaðurinn Jan van Risseghem hefur áður verið nefndur sem hugsanlegur tilræðismaður en í myndinni er það rökstutt mun rækilegar en áður. Hann hefur þá iðulega verið nefndur belgíski flugmaðurinn en tengsl hans við Bretland eru æði náin. Móðir hans var bresk og eiginkonan einnig. Hann hlaut þjálfun í konunglega breska flughernum og hann hlaut margvíslegar viðurkenningar í Bretlandi fyrir framistöðu sína í síðari heimsstyrjöldinni. 

Viðurkenndi að hafa skotið vélina niður

Í nýju heimildarmyndinni, Cold Case Hammarskjöld er rætt við vin hans sem fullyrðir að hann hafi viðurkennt að hafa skotið niður flugvélina og þar með orðið valdur að dauða framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Annar félagi hans segir augljóst að átt hafi verið við flugbók Risseghem og að fjarvistasönnun hans standist engan veginn. Risseghem vann fyrir uppreisnarmenn í Kongó á þessum tíma og í myndinni er fullyrt að hann hafi fengið skipun um að skjóta niður flugvél, vél sem hann frétti ekki fyrr en síðar að væri með framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um borð. Í gögnum sem nýlega voru gerð opinber kemur fram að sendiherra Bandaríkjanna í Kongó nefndi hann sem líklegan tilræðismann. 

Fjarvistasönnun heldur ekki vatni

Van Risseghem virtist hafa skothelda fjarvistarsönnun og flugbókin sýndi að hann var hvergi nærri þegar vélin brotlenti. Annar flugmaður sem rætt er við í myndinni segir augljóst að átt hafi verið við flugbókina, hann segir færslur í henni tómt rugl og að nöfn á sumum flugmönnum þar sé tómur uppspuni. Annar félagi Risseghem frá þessum tíma segir fullum fetum að Risseghem hafi viðurkennt fyrir sér að hafa skotið flugvélina niður. Van Risseghem lést árið 2007. Myndarinnar er beðið með mikilli eftirvæntingu og líklega eru upplýsingarnar sem nú birtast í Guardian aðeins lítið brot af því sem þar kemur fram.

Mesti stjórnmálaskörungur aldarinnar

Flestir telja Dag Hammarskjöld einhvern besta framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna frá upphafi og John F. Kennedy Bandaríkjaforseti sagði hann mesta stjórnmálaskörung aldarinnar.