Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Viðtal: Þrefalda þurfi ríkisframlagið til LA

Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson

Viðtal: Þrefalda þurfi ríkisframlagið til LA

13.01.2017 - 11:59

Höfundar

Ef reka á atvinnuleikhús með myndarskap á Akureyri þarf að þrefalda framlag til Leikfélags Akureyrar í menningarsamningi ríkisins við Akureyrarbæ. Þetta segir leikhússtjóri félagsins. Framlagið hafi rýrnað um 60 prósent undanfarinn áratug. Skapa verði skilyrði til að fastráða leikara og setja upp nokkrar sýningar á ári.

Opinbert framlag til reksturs og framleiðslu Leikfélags Akureyrar hefur verið í óbreyttri krónutölu frá árinu 2007. Félagið fær um 100 milljónir króna á ári til sviðslista. Þar af er helmingurinn framlag ríkisins í gegnum menningarsamninginn, en sá hluti hefur ekki tekið neinum verðbótum á þessum tíma. Séu verðlagsbreytingar reiknaðar þar inn í segir Jón Páll Eyjólfsson, leikhússtjóri, að framlagið hafi rýrnað um tæp 60 prósent á þessum áratug.

Árlegt framlag dugi ekki fyrir einni sýningu

Af árlegu rekstarfé Leikfélagsins segist hann hafa um 50 milljónir króna til framleiðslu á sviðslistum. Meðal leiksýning kosti hins vegar um 70 milljónir. Ef aðsókn er góð og 5.000 áhorfendur sæki sýninguna, séu tekjur af miðasölu um 15 milljónir. Þá sé tapið af hverri sýningu jafn mikið og allt það fjármagn sem hann hafi úr að spila.

Verði að endurskoða allar tölur í framlagi ríkisins

Jón Páll segist telja að það sé einlægur vilji allra sem að þessum málum koma á Akureyri að þar sé atvinnustarfsemi í sviðslistum. „Að við framleiðum hér okkar eigið efni. Efni sem sé segull á ferðamenn og á þennan stað. Það þýðir að við verðum að taka upp nýtt samtal við ríkisvaldið, við nýjan menntamálaráðherra og kannski bara að vísa í nýjan stjórnarsáttmála. Sérstaklega um eflingu og atvinnustarfsemi í skapandi greinum.“ Þarna verði að útskýra hlutverk Leikfélags Akureyrar, væntingar sem gerðar eru til þess og bera það saman við það sem raunverulega sé hægt að gera. Það verði að skapa skilyrði sem hæfi alvöru atvinnuleikhúsi. Og ef markmið menningarsamningsins eigi að nást að fullu, verði að endurskoða allar tölur í framlagi ríkisins.

Skapa þarf skilyrði til að fastráða leikara

„Ef þessi starfsemi á að halda áfram með sama myndugheit og hefur verið í nærri 40 ár sem atvinnuleikhús, og önnur 60 þar á undan sem áhugamannaleikhús, þá verðum við að skapa hér skilyrði sem eru þannig að hér sé hægt að fastráða leikhóp. Segjum sem svo að árið 2020 sé hér þá komið það mikið fjármagn að hér sé hægt að gera fjórar til fimm miðlungsstórar sýningar og hér geti verið sex manna leikhópur. Það krefst þess að við semjum upp á nýtt og það þarf þá að koma töluverð innspýting. Það er þá bara fjárfesting í skapandi greinum á Norðurlandi,“ segir Jón Páll.

Mikill virðisauki fyrir samfélagið

Hann bendir á að Leikfélag Akureyrar starfi á smærra markaðssvæði en atvinnuleikhúsin á höfuðborgarsvæðinu. Möguleikar LA á sjálfsaflafé séu því minni en hjá þeim menningarstofnunum sem þar starfa. Mögulega geti LA náð til baka 25-30 prósentum af því sem kostar að framleiða sviðslist. „En hér er svo mikill mannauður. Það er synd að sá mannauður og kraftur sé ekki nýttur við að framleiða efni sem er tengt svæðinu og líka að taka upp og gera hér sýningar sem eru ekki sprottnar hér úr samfélaginu beint. Stærri verkefni sem við getum tekist á við, alveg jafnt og Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið,“ segir Jón Páll. „Og við það að ráða til dæmis fjögurra til sex manna leikhóp, það er svo mikill virðisauki af því fyrir samfélagið. Ekki bara bein innspýting fjárhagslega, heldur líka sá virðisauki sem hlýst af því að fá nýja einstaklinga í samfélagið sem hugsanlega bindast hér böndum eða festa hér rætur.“

Geta ekki tekist á við stórar sýningar

Tæknilega séð segir hann að menningarsamningurinn geri ráð fyrir að LA haldi úti atvinnuleikhúsi og setji upp ákveðið magn af sviðsuppfærslum á ári, annað hvort eitt og sér eða í samstarfi við aðra. Og stöðu sinnar vegna hafi LA undanfarið þurft að leita meira samstarfs en áður. „Og við höfum þurft að minnka umfang sýninganna mikið og við erum bundin því að ég get ekki valið hvað sem er. Hingað hafa komið frábærar, mjög skemmtilegar og stórar hugmyndir inn á borð sem ég hef bara þurft að velja frá. Og það er hætt við því að segulaflið í sýningum, sem eru smærri og með minni höggþunga, fari bara einhvern veginn undir radarinn. Þær ná ekki í gegn og eru ekki nógu stórar til að vekja forvitni, eða staldra svo stutt við að bæjarbúar bara missa af þeim. Það er ekki það sem ég vil upplifa.“

Vill ekki að Leikfélag Akureyrar verði útibú

Og ef framlag ríkisins breytist ekki og ekki takist að auka það eins og þörf sé fyrir, segir Jón Páll hægt að hugsa sér að eingöngu verði um það að ræða að nýta húsnæði og búnað og bjóða eingöngu upp á gestasýningar. LA verði þannig útibú, en ekki framleiðslufyrirtæki. „Það þarf ekkert Leikfélag Akureyrar til þess að halda úti móttöku fyrir gestasýningar. Það væri þá bara hægt að gera einhverja samninga við Borgarleikhúsið eða Þjóðleikhúsið um tvær sýningar á ári frá hvoru, sem gætu passað hér inn í sitt hvort húsið. En þá aftur á móti missum við virðisaukann, við missum í raun og veru mannauðinn, við missum þann segul sem sýningar, sem hafa verið smíðaðar og settar upp hér hafa verið á ferðamenn, og bara nærsveitunga sem koma til Akureyrar og njóta lista og afþreyingar í hæsta gæðaflokki. Þannig að staðan gæti orðið sú að starfsemin myndi í raun og veru þróast yfir í að verða einhvers konar útibú,“ segir Jón Páll Eyjólfsson.

Hlusta má á viðtalið við Jón Pál í heild hér að ofan.