Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Víðtæk áhrif loðnubrestsins

Mynd með færslu
 Mynd:
Loðnubresturinn er skellur fyrir sjómenn og starfsfólk í landvinnslu. Sumir sjá fram á að árstekjurnar skerðist um helming. Fiskvinnslufólk hefur sumt varið vikum og mánuðum í að skrúbba hvern fermetra í vinnsluhúsunum á strípuðum grunnlaunum og sveitarfélög sem mest reiða sig á loðnu eru þessa dagana að gera upp við sig hvernig skuli bregðast við tekjusamdrætti. Ríkið missir líka milljarða. Formaður samtaka sjávarútvegsfyrirtækja segir fordæmi fyrir að það aðstoði byggðir vegna aflabrests.

Starfsfólk sent heim á kauptryggingu

„Þetta hefur bara gríðarleg áhrif, bæði sjómenn og landverkafólk verður fyrir griðarlegum tekjuskerðingum því lítið sem ekkert hefur veiðst af þeim tegundum sem menn hafa verið að veðja á, það eru dæmi um að fiskvinnslufólk hafi hreinlega verið sent heim á kauptryggingu því það hefur ekki verið neina vinnu að hafa,“segir Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður stéttafélagsins Framsýnar en undir það heyrir Verkalýðsfélag Þórshafnar. Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður Afls stéttarfélags, sagði í samtali við Fréttablaðið að loðnubresturinn heffði áhrif á um 500 manns í landvinnslu og áhafnir um tíu skipa á starfssvæði félagsins sem nær yfir stóran hluta Austurlands. Aðalsteinn segir atvinnurekendur halda að sér höndum í ráðningum og að það sé dauft yfir mörgum sjávarplássum, þar sem hvorki hafi veiðst íslensk síld né loðna. Víða hafi góðar vertíðir haldið uppi launum fólks. En þolir fólkið þennan tekjumissi? Flyst það hugsanlega burt? „Auðvitað vonar maður að það verði ekki þannig að fólk þurfi að flytjast búferlum, alls ekki. Við þekkjum það íslendingar að veiðar á þessum uppsjávartegundum hafa verið upp og niður í gegnum tíðina, við erum í lægð núna og vonandi fer þetta bara upp aftur sem fyrst.“

Mynd með færslu
 Mynd: Karen Rut Konráðsdóttir - RÚV
Þórshöfn í Langanesbyggð, Ísfélagið í Vestmannaeyjum rekur það fiskvinnslu.

Nær ekkert unnið á árinu

Loðnuvertíðin er mislöng, getur staðið frá nokkrum vikum upp í tvo, þrjá mánuði, á tímabilinu frá janúarbyrjun og fram í mars. Þegar loðnan lætur ná sér er brjálað að gera allan sólarhringinn í þeim byggðalögum sem reiða sig á uppsjávarvinnslu. 

Spegillinn ræddi við konu sem starfar í uppsjávarvinnslu HB Granda á Vopnafirði. Hún segir stóran hluta starfshópsins nær ekkert hafa unnið á þessu ári, þó einhverjir hafi getað hlaupið í þrif og viðhaldsverkefni. Starfsfólk fái greidd grunnlaun sem séu um helmingi lægri en launin í loðnuvertíð, í fyrra hafi kvótinn reyndar verið lítill og bara tveggja vikna vertíð en það hafi samt munað um það. Hún segir að sem betur fer séu grásleppuveiðar að hefjast og afli væntanlegur á næstu dögum, það sé því ekki útlit fyrir að starfsfólk uppsjávarvinnslu HB Granda sitji áfram aðgerðalaust. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Lítill hluti starfsfólks uppsjávarvinnslu HB Granda á Vopnafirði hefur varið síðustu vikum í að þrífa allt hátt og lágt, hinir sitja heima að sögn starfsmanns.

Það hafa verið erfiðleikar á Vopnafirði. Í fyrra haust var fjórtán starfsmönnum vinnslu HB Granda á Vopnafirði sagt upp, bolfiskvinnsla hafði gengið illa og tap á rekstrinum. Þeir sem misstu vinnuna áttu að ganga fyrir ef vöntun yrði á fólki á uppsjávarvertíð. Loðnuvertíðin brást svo alveg. 

Annar starfsmaður HB Granda sem Spegillinn ræddi við, segist ekki hafa séð fisk í fjóra mánuði. Loðnubresturinn hafi valdið honum miklum tekjumissi enda loðnuvertíð mikið uppgrip, nú þurfi hann að fara betur með peningana. Hann segir að síðustu þrjá mánuði hafi um tíu af sextíu starfsmönnum vinnslunnar verið í því að þrífa og mála, skríða um gólfin og skrúbba hvern einasta blett. Þetta hafi verið erfiður tími en nú sé bjart framundan, tveggja mánaða gráslepputörn að hefjast, þá sé unnið alla daga, líka um helgar. Svo komi makríllinn. 

Teknar ákvarðanir um viðbrögð á morgun

En hver verða áhrif loðnubrestsins á sveitarfélagið? Þór Steinarsson, sveitarstjóri á Vopnafirði segir að fyrir liggi minnisblað sem verði lagt fyrir sveitarstjórn á morgun, hann vill ekki tjá sig um efni þess fyrr en sveitarstjórn hefur afgreitt það en segir að væntanlega verði teknar ákvarðanir um það á fundinum hvernig brugðist verði við, það gæti til dæmis þurft að hætta við framkvæmdir. Hann segir sveitarfélagið hafa það umfram Langanesbyggð, nágrannasveitarfélagið í norðri, að í Vopnafirði sé verið að vinna kolmunna, sú vertíð sé hafin og því ekki allt stopp. 

Ef loðnan fer fyrir fullt og allt segir hann að sveitarfélagið komi til með að aðlagast, og það þurfi raunar að aðlagast, burt séð frá loðnunni. Eins og fleiri sveitarfélög sem eru mjög háð einni atvinnugrein, sjávarútveginum, þurfi Vopnafjörður að vinna að því að auka stöðugleika á svæðinu, viðhalda góðum lífsskilyrðum og eðlilegu aðgengi að þjónustu. Loðnubresturinn hjálpi þó engan veginn til við það verkefni, það sé á hreinu. 

Halda áfram framkvæmdum við leikskóla

Mynd með færslu
 Mynd:
Nýr leikskóli rís á Þórshöfn.

Langanesbyggð verður af um 25 milljóna tekjum vegna loðnubrestsins, það nemur um 83% af áætluðum tekjuafgangi ársins. Áætlað er að tekjutap starfsfólks verði allt að því 50 milljónir, það munar um það í litlu samfélagi. Elías Pétursson, sveitarstjóri, segir vinnu við að yfirfara fjárhagsáætlun og ákveða viðbrögð að hefjast.  „Þetta verður gert með einhverju samblandi af aðhaldi í rekstri og síðan mögulega einhverri forgangsröðun framkvæmda og verkefna sem við erum með í gangi eða vorum að setja í gang.“

Eitt stærsta verkefnið er nýr leikskóli sem nú er verið að byggja, Elías segir að framkvæmdir við hann og önnur stærri verkefni tefjist ekki en hugsanlega verði hægt að fresta eða áfangaskipta öðrum verkefnum. 

Ekki tilefni til algerrar svartsýni

Hann segir loðnubrestinn mikið högg þó íbúar séu ýmsu vanir, hafi upplifað aflabresti og hafísár. „Að sjálfsögðu hefur fólk örugglega áhyggjur af þessu og finnur fyrir því þegar tekjurnar eru lægri en fólk bjóst við, það er samt ekkert hljóð, hvorki í Ísfélaginu né öðrum, um að það eigi að fara að segja upp fólki, ekkert þess háttar. Menn gefa sér að þetta sé bara eitt ár og svo geta, vel að merkja, komið aðrar fisktegundir seinna á árinu sem geta vegið þetta upp. Ég legg því til að menn fari ekki í algera svartsýni.“

Mælingar Hafró benda til þess að loðnan kunni að verða rýr á næsta ári líka. Það er þó ekki hægt að spá fyrir um það með mikilli vissu. Hvað ef loðnubrestur er kominn til að vera? „Ég veit það svo sem ekki, mér hefur reyndar fundist eins og vísindamenn viti ekkert endilega mjög mikið um loðnuna. Ef þetta er komið til að vera eru bara uppi allt aðrar aðstæður. Þetta eru milljarðar sem loðnan er að skila í þjóðarbúið. Ef þetta er komið til að vera hefur það afleiðingur en ég held það sé ekki hægt að velta sér of mikið upp úr því, þetta er bara lífríkið og menn verða bara að bíða og sjá.“ 

Lært að afla fyrst og eyða svo

Mynd með færslu
 Mynd:
Síldarvinnslan, Neskaupsstað.

Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupsstað, segir að það séu miklar sveiflur í kringum uppsjávartegundirnar, bæði sveiflur á stofnstærð og í verði, þessar sveiflur gleymist oft þegar vel gengur, þá tali stjórnmálamenn um ofsagróða og skattlagningu. Hann segir sjávarútveginn hafa aðlagað sig að sveiflunum, lært að afla fyrst og eyða svo, engu að síður sé loðnubresturinn áfall og fyrirtækið bregðist við honum með því að draga úr fjárfestingum og hagræða í rekstri. 

Fýluferð fyrir vertíðarfólk að utan

Hann segir ástandið bitna illa á starfsfólki, útlit sé fyrir að laun fólks sem starfar við vinnslu skerðist um 20-30% á ársgrundvelli og laun sjómanna enn meira. Törnin sé tvíþætt, minna hafi verið unnið af íslensku síldinni út af sýkingu og svo hafi þriggja mánaða loðnu vertíð brugðist. Hann segir að höggið sé þyngst hjá fyrirtækjum vinnslunnar Í Neskaupsstað. Gunnþór segir að ekki verði gripið til uppsagna, fólk mæti í vinnu en verkefnin séu af skornum skammti. Fólkið sem kemur að utan til að taka þátt í vertíðinni og hefur gert í mörg ár, einkum frá Póllandi, hafi haft mun minna upp úr dvölinni en það lagði upp með. Hann hefur áhyggjur af því að tapa því fólki, aukist óvissan í kringum loðnuna frekar. Þá segir hann að ekki megi vanmeta áhrifin á markaðinn, kaupendur í Japan hafi áhyggjur af stöðunni. 

Gunnþór segist hugsi vegna aukinna sveiflna í loðnustofninum, telur lykilatriði að auka rannsóknir á henni og stöðu hennar í vistkerfinu, áhrif þorsks og hvala á stofninn.

Mynd með færslu
Áhöfnin á Jónu Eðvalds með gott kast á síðunni í morgun Mynd: Stefán Stefánsson
Loðnuveiði árið 2017, það ár fannst loðnan seint og um síðir. Fólk hélt lengi í vonina um að það sama gerðist í ár.

Fjarðabyggð á góðum stað miðað við að vera á vondu stað

Áhrif loðnuleysisins eru mikil í Fjarðabyggð en til sveitarfélagsins heyrir tæpur helmingur loðnukvótans. Bresturinn snertir stór fyrirtæki á borð við Eskju á Eskifirði, Síldarvinnsluna í Neskaupsstað og Loðnuvinnsluna á Fáskrúðsfirði. Fram hefur komið að sveitarfélagið verði fyrir 160 milljóna króna tapi vegna brestsins og hafnarsjóður fyrir hundrað milljóna tapi, laun í sveitarfélaginu lækki um 5% og laun fólks í sjávarútvegi um 13%. Fimmtán hafa misst vinnuna. Á vef sveitarfélagsins segir að afleidd áhrif smitist um samfélagið, hafi áhrif á bjartsýni íbúa, fjárfestingar fyrirtækja og fasteignamarkaðinn. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson - Fáskrúðsfjörður
Frá Fáskrúðsfirði. Þar er loðnuvinnsla.

Karl Óttar Pétursson, sveitarstjóri Fjarðabyggðar, segir sveitarfélagið vera á góðum stað miðað við það að vera á vondum stað. Tvennt kemur til. Í fyrsta lagi er kolmunnavertíðin ekki lengur í uppnámi, þökk sé samkomulagi sem sjávarútvegsráðherrar Íslands og Færeyja undirrituðu í vikunni. Íslendingar mega veiða í lögsögu Færeyja. Karl Óttar segir að vegna þessa þurfi ekki að reikna tjón vegna minni veiða á kolmunna. Í öðru lagi segir hann sveitarstjórn sjá fram á að hægt verði að ná hundrað milljóna hagræðingu í hafnarsjóði þar sem tilboð í viðgerð á stálþili stærstu hafnar landsins í Norðfirði hafi reynst mun lægra en búist hafði verið við. Hann segir að ekki standi til að grípa til uppsagna eða fella niður stórar framkvæmdir upp á 5-600 milljónir kro´na sem eru fyrirliggjandi,  hvorki þessa við höfnina í Norðfirði né framkvæmdir við leikskóla á Reyðarfirði. Hvað varðar 160 milljóna tekjumissi sveitarsjóðs segir Karl Óttar að sviðstjórum og formönnum nefnda hafi verið falið að fara yfir möguleika í stöðunni en fjárhagsáætlun verði ekki tekin upp fyrr en niðurstaða kjaraviðræðna liggur fyrir.

Skoðar samstarf við fyrirtækin

Karl hyggst skoða hvort sveitarfélagið geti farið í eitthvert samstarf við fyrirtækin til að treysta stöðu þeirra en segist þó ekki hafa áhyggjur af því að það hrikti í stoðum fyrirtækjanna vegna loðnubrestsins, útgerðirnar í fjarðabyggð séu blómlegar og byggi á fjórum stoðum; síld, makríl, loðnu og kolmunna, þær hrynji ekki þó ein stoðin gefi sig. 

„Hörmulegt ástand“ í Vestmannaeyjum

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Talið er að starfsmenn Ísfélagsins og Vinnslustöðvarinnar tapi allt að 630 milljónum.

Í Morgunblaðinu í morgun var fjallað um áhrif loðnubrestsins í Vestmannaeyjum. Bæjarstjórn fól fjármálastjóra bæjarins að fara yfir fjárhagsleg áhrif loðnubrests, minnisblað sem hann lagði fram á fundi bæjarráðs í gær bendir til þess að í Eyjum tapist hátt í 800 milljónir. Tekjuskerðing starfsmanna Vinnslustöðvarinnar og Ísfélags Vestmannaeyja geti numið allt að 630 milljónum sem þýði að bærinn verði af 90 milljóna útsvarstekjum. Gert er ráð fyrir 31-41 milljónar tapi hjá hafnarsjóði. 

Þorsteinn Ingi Guðmundsson, formaður sjómannafélagsins Jötuns í Vestmannaeyjum segir ástandið hörmulegt. Sjómenn sjái fram á helmingstekjutap. „Helmingur ársteknanna koma á þessum tíma, það eru mikil uppgrip í þessu.“

Ísfélag Vestmanneyja setti í síðustu viku skipið Álsey á sölu, loðnubresturinn hafði þar áhrif. Þorsteinn segir að áhöfninni hafi verið sagt upp, einhverjir hafi fengið önnur störf hjá fyrirtækinu en þrír eða fjórir standi eftir án atvinnu. 

Að fáu öðru að hverfa ef loðnan bregst til langs tíma

Hann segir ekki fást mikið fyrir kolmunnann, kvótinn hafi verið lítill, og þurft að sækja fiskinn langt í vondum veðrum og þar sem hann hafi lítið geymsluþol gefi aflinn lítið í aðra hönd. Bolfisksvinnslan hafi aftur á móti verið góð og það tryggi fólkinu í landvinnslunni vinnu. Hún vegi þó ekki upp á móti loðnubrestinum. En hvað ef loðnan lætur ekki heldur sjá sig á næsta ári? „Maður hugsar til þess með hryllingi ef það verður, það er mest hætta á því að menn flosni upp úr störfum, menn geta ekki verið án atvinnu langtímum saman því það er svo lítið að öðru að hverfa á þessum stóru skipum. Hér áður gátu þessi skip farið í netaveiði eða eitthvað annað en nú eru þau nær eingöngu gerð fyrir veiðar á uppsjávarfiski og lítið fyrir þau að gera ef þær bregðast.“ 

Það er mat fjármálastjóra Vestmannaeyjabæjar að forsendur fjárhagsáætlunnar séu ekki brostnar, í raun hafi verið búið að gera ráð fyrir loðnubrestinum í útsvarssjóði, það sé þó ekki mikið svigrúm dynji fleiri áföll á bæjarsjóði. 

Fulltrúi sjálfstæðismanna í minnihluta gagnrýndi ákvörðun meirihlutans um að taka ekki upp fjárhagsáætlun og sagði hana óábyrga þar sem til viðbótar við loðnubrestinn væru kjarasamningar lausir og yfirvofandi tugmilljóna skerðing framlags úr jöfnunarsjóði. Full ástæða væri til að bregðast við með hagræðingu í rekstri. Staðan í bæjarfélaginu verður rædd nánar á fundi í næstu viku. 

Hornafjörður býr að ferðaþjónustunni

Bæjarstjórn Hornafjarðar samþykkti í síðustu viku bókun Matthildar Ásmundardóttur, bæjarstjóra, um að fela fjármálastjóra að meta áhrif loðnubrests á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Þar segir að ljóst sé að loðnubrestur og litlar veiðar á humri eigi eftir að hafa töluverð áhrif á tekjur sveitarfélagsins og hafnarinnar. Sveitarfélagið búi þó við hátt atvinnustig og öfluga ferðaþjónustu sem sé mikill styrkur þegar eitthvað bjáti á í sjávarútveginum. 

Ekki allir sáttir við orð ráðherra

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Ekki eru allir sáttir við viðbrögð ráðherra við loðnubresti.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, sagðist í vikunni, ekki hafa nein úrræði til að hlaupa undir bagga með þeim sveitarfélögum sem verst verða úti vegna loðnubrestsins. „Það er bara högg sem sjávarútvegurinn þarf að bera að öllu óbreyttu, svo verða menn þá í einhverju stærra samhengi að leggjast yfir áhrifin af einhverjum efnahagsáföllum sem kunna að ríða yfir en hingað til hefur ekki verið gert ráð fyrir öðru en því að ef brestur verður í loðnuvertíð beri viðkomandi fyrirtæki það.“  

Ekki eru allir sáttir við orð ráðherrans. Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga hyggst álykta um málið á fundi sínum í næstu viku. Gauti Jóhannesson, formaður samtakanna, segir þetta gríðarlegt áfall fyrir sveitarfélögin og gerir athugasemd við orð sjávarútvegsráðherra um að fyrirtækin sjálf þurfi ein að taka á sig höggið í ljósi þeirra víðtæku áhrifa sem bresturinn hafi fyrir sveitarfélögin og þjóðarbúið í heild.

Fordæmi fyrir mótvægisaðgerðum

Gauti vill að skoðað verði með hvaða hætti ríkið geti brugðist við þeim skelli sem sveitarfélögin hafi orðið fyrir og bendir á fordæmi fyrir slíkum mótvægisaðgerðum frá árinu 2007, þá hafi ríkisstjórnin ákveðið að flýta vegaframkvæmdum á ellefu stöðum á landinu til að mæta skerðingu á aflamarki á næsta fiskveiðiári, í frétt mbl.is frá því í júlí það ár segir að tekin hafi verið ákvörðun um að verja 6,5 milljörðum um fram það sem hafði verið ákveðið til þessara flýtuframkvæmda á árunum 2008 til 2010. 

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð, sagði í gær að í stað þess að  sagðist í gær vilja að ríki og sveitarfélög hefðu viðræður um mögulegar mótvægisaðgerðir vegna loðnubrestsins. Í stað þess að skerða framlög til jöfnunarsjóðs ætti ríkið að nota hann til að koma til móts við sveitarfélög sem verði fyrir tekjutapi. Þá nefndi hann að hugsanlega mætti auka bolfiskkvótann, styðji rannsóknir Hafrannsóknastofnunar það, eða kanna hvort hægt væri að flýta leyfisveitingum í fiskeldi. 

Bresturinn þýðir lægri hagvaxtarspá

Mynd með færslu
 Mynd:
Gústaf Steingrímsson.

Gert er ráð fyrir að ríkissjóður verði af fjórum til fimm milljörðum króna vegna loðnubrestsins. Útflutningstekjur vegna loðnuveiða námu 17,8 milljörðum króna í fyrra. Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur við hagfræðideild Landsbankans, segir að bresturinn nemi gróft á litið um 0,6% af landsframleiðslu í fyrra og 1,5% af útflutningi. Bresturinn nú, jafngildi því að heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða skerðist um 9,2% miðað við heildarútflutningsverðmæti ársins 2017. Annað dæmi. Þorskur nam 42,5% af heildarútflutningi sjávarafurða árið 2017 og loðnubresturinn nú er á við að þorsksaflinn myndi dragast saman um 20%, miðað við útflutningstekjur ársins 2017. 

Gústaf segir brestinn koma til viðbótar við þann samdrátt sem búist sé við í ferðaþjónustu. Hagfræðideild Landsbankans gefur út uppfærða verðbólgu- og þjóðhagsspá í maí. Gústaf segir að forsendur hafi breyst frá því síðasta spá var gefin út í nóvember. Að óbreyttu hafi loðnubresturinn töluverð áhrif til lækkunar. Allir opinberir spáaðilar vænti þess að hagvöxtur verði töluvert minni en í fyrra og tiltölulega lítill miðað við síðustu ár, en þó jákvæður. 
 
Gústaf segir að fyrst og fremst hafi þetta áhrif á byggðalögin sem veiði loðnu, áhrif brests í uppsjávartegundum sé staðbundinn, áföll tengd botnfiski, eins og þorski, hafi aftur á móti áhrif á sjávarbyggðir um allt land. Hann segir loðnubrestinn hafa veruleg áhrif á laun sjómanna og verkafólks í landi, sem og á tekjur fyrirtækja og skatttekjur sveitarfélaga. Sé loðnubrestur kominn til að vera verði menn að breyta áætlunum sínum með tilliti til þess. 

Hvað ef þorskurinn sveltur vegna loðnubrests?

 Í Speglinum í gær var fjallað um tvöfalt gildi loðnunnar, hún er mikilvæg í sjálfu sér en er líka ein mikilvægasta fæða aðalnytjastofnsins, þorsksins. Spegillinn fékk Gústaf til þess að reikna út hver áhrifin yrðu á næsta ári, ef aftur yrði loðnubrestur og auk þess 25% samdráttur í veiðum á þeim nytjastofnum sem reiða sig á loðnuna; ufsa, þorski og grálúðu. Þess ber að geta að ekkert bendir til þess að langvarandi loðnubrestur myndi valda 25% samdrætti hjá þessum tegundum, forsendur þeirra talna sem valdar eru í dæmið eru ekki vísindalegar. 

epa06620165 A wave breaks in the Atlantic ocean off Cape Town, South Africa, 22 March 2018. South Africa is exploring desalination from the ocean as a solution to the Western Cape drought and water crisis as well as research into wave energy plants. World
Suður Atlantshaf. Mynd úr safni. Mynd: EPA

Gústaf áætlaði útflutningsverðmæti tegundanna fyrir síðasta ár út frá veiðum ársins 2018 en útflutningsverðmæti þeirra á síðasta ári liggur ekki fyrir. Fjórðungssamdráttur á þessum þremur tegundum myndi að hans mati leiða til 27,6 milljarða samdráttar í útflutningstekjum milli áranna 2018 og 2020. Það myndi síðan bætast við samdráttur vegna loðnubrests en útflutningstekjur vegna loðnuveiða námu 17,8 milljörðum króna í fyrra. Heildarsamdrátturinn á milli 2018 og 2020 yrði því 45,4 milljarðar. Það eru um 1,6% af landsframleiðslu síðasta árs, að öðru óbreyttu, og er á við að útflutningur vegna ferðalaga erlendra ferðamanna hér á landi myndi dragast saman um 13,5%. 
 
Hann segir erfitt að segja nákvæmlega hversu mikil neikvæð áhrif þetta hefði á heimilin í landinu og efnahagslífið en það hafi ekki verið skoðað ofan í kjölinn. Það sé þó ekki hægt að neita því að þetta yrði töluverður skellur fyrir þjóðarbúið. Þetta muni hafa töluvert mikil bein áhrif á atvinnuleysi, launatekjur og skatttekjur í þeim byggðarlögum sem eigi lífsviðurværi sitt undir þessum tegundum. Þar til viðbótar, myndu heimilin í landinu án efa finna fyrir þessu, sérstaklega ef þetta væri komið til að vera. Þetta myndi að öðru óbreyttu veikja krónuna, hækka verðlag og draga úr kaupmætti.