Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Viðskipti með fasteignir ekki fleiri í tvö ár

07.09.2018 - 10:34
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Viðskipti með fasteignir á höfuðborgarsvæðinu voru næstum helmingi fleiri í ágúst en í fyrra og fjöldi viðskipta í einum mánuði hefur ekki verið meiri síðan í nóvember 2016. Viðskiptin í ágúst voru 728 talsins, samanborið við 499 í ágúst í fyrra. Sé litið á fjölda viðskipta fyrstu átta mánuði ársins í ár voru þau sjö prósent fleiri en á sama tíma í fyrra. Meðalfjöldi viðskipta fyrstu átta mánuðina í ár var því orðinn jafn mikill og var að meðaltali á öllu árinu 2017.

Hlutfall nýrra íbúða af heildarveltu hefur tæplega tvöfaldast. Samkvæmt tölum Þjóðskrár voru nýjar íbúðir 16,5 prósent af öllum seldum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu á fyrstu sjö mánuðum ársins en einungis 8,3 prósent á árinu 2017. Sé litið á meðalverð á fyrstu sjö mánuðum áranna 2017 og 2018 sést að nýjar íbúðir hafa hækkað um 5,1 prósent og eldri íbúðir um 4,3 prósent. 

Í Hagsjá Landsbankans kemur fram að athyglisvert sé að nýjar íbúðir seldar í ár séu mun minni en var í fyrra. Það líti því út fyrir að íbúðabyggjendur séu farnir að mæta eftirspurn eftir minni íbúðum sem er yfirleitt talin meiri en eftir þeim stærri. Þá segir einnig að spennandi verði að sjá svör við því hvort mikil aukning á framboði nýrra íbúða hafi áhrif til lækkunar á verði þeirra.