Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Viðskipti með bréf Kviku hófust á aðalmarkaði

28.03.2019 - 15:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Viðskipti með hlutabréf Kviku banka hf. hófust á Aðalmarkaði íslensku kauphallarinnar, Nasdaq Iceland, í dag. Kvika var áður skráð á Nasdaq First North.

Kvika sérhæfir sig í bankaþjónustu fyrir fjárfestingastarfsemi og eignastýringu. Haft er eftir Ármanni Þorvaldssyni, forstjóra Kviku banka, í frétt frá Nasdaq að fyrsta ár Kviku á First North markaðinum hafi verið árangursríkt.

„Fjárhagsleg staða okkar er traust og rekstur félagsins mun eflast með kaupum á GAMMA Capital Mangement fyrr í þessum mánuði. Auk þess hefur hluthöfum í fyrirtækinu fjölgað til muna þannig að næsta eðlilega skref er að skrá félagið á aðalmarkaðinn. Þetta eru spennandi tímar fyrir félagið og hluthafa þess,“ er haft eftir Ármanni.

Páll Harðarson, forstjóri kauphallar Íslands, sagðist ánægður með að geta tekið á móti Kviku á aðalmarkaðinum. „Á því eina ári sem Kvika hefur verið skráð á First North-markaðinum hefur félagið sýnt vaxtarburði sína. Fyrirtækið er þess vegna dæmi um að það sé hægt að vaxa með skipulögðum hætti á Nasdaq First North áður en skrefið er stigið á aðalmarkaðinn.“

Kvika er fyrsta fyrirtækið sem er skráð á aðalmarkað kauphallarinnar á þessu ári og ellefta félagið sem skráð er á markað Nasdaq Nordic á Norðurlöndum.

Kvika tilkynnti í desember í fyrra um að fyrirtækið myndi óska eftir inngöngu á aðalmarkaði Nasdaq Iceland fyrir lok fyrsta ársfjórðungs þessa árs. Í tilkynningu til hluthafa þá skrifaði Ármann að áætlun ársins 2019 gerði ráð fyrir áframhaldandi góðum rekstri fyrirtækisins.

„Hlutabréf bankans voru skráð á First North markaðinn í mars á þessu ári. Það hefur gefið góða raun sem má t.d. sjá á því að hluthöfum bankans hefur fjölgað mikið og eru nú um 700 talsins. Það er því eðlilegt skref að skrá hlutabréfin á Aðalmarkað Nasdaq Iceland.“