Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Viðskiptastríð aldrei góðar fréttir"

Mynd: RÚV / RÚV
Forsætisráðherra og utanríkisráðherra lýsa áhyggjum af alþjóðlegum viðskiptum eftir misheppnaðan fund G7-ríkjanna. Utanríkisráðherra segir viðskiptadeilur og -stríð aldrei góðar fréttir fyrir Íslendinga.

Blikur á lofti

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir niðurstöðu G7-fundarins í Kanada áhyggjuefni fyrir Íslendinga. Blikur séu á lofti ef molnar undan alþjóðlegu samstarfi.

Misheppnaður G7 fundur

Almennt er litið svo á að fundur sjö stærstu efnahagsvelda heims, G7-fundurinn í Kanada um helgina, hafi farið út um þúfur. Segja sumir fréttaskýrendur að sambúð ríkjanna hafi versnað verulega. Trump kom seint til fundarins og yfirgaf hann áður en honum lauk. Trump dró til baka stuðning við sameiginlega yfirlýsingu og veittist að öðrum fundarmönnum, einkum Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. Gjá virðist á milli Bandaríkjastjórnar og annarra G7-ríkja, sem veldur áhyggjum. Þær áhyggjur ná til Íslands. 

Mikil stefnubreyting

Katrín segir að það skipti Íslendinga miklu að eiga opin og góð samskipti  við aðrar þjóðir, bæði á sviði stjórnmála og viðskipta. Hagur Íslendinga hafi verið tryggður í gegnum fjölþjóðleg samskipti. Á G7 fundinum hafi birst mikil stefnubreyting Bandaríkjaforseta gagnavart þessum fjölþjóðlegu viðskiptum og það sé áhyggjuefni.

,,Viðskiptastríð aldrei góðar fréttir fyrir Íslendinga"

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir að viðskiptastríð eða -deilur séu aldrei góðar fréttir fyrir Íslendinga, sem eigi gríðarlega mikið undir frjálsri verslun. Hann segir þetta ekki í fyrsta sinn sem við sjáum vinaþjóðir takast á um viðskipti, þó að orðfærið sé annað en menn eigi að venjast.

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV