Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Viðskiptabann torveldar HM-undirbúning Íslands

Mynd: RÚV / RÚV

Viðskiptabann torveldar HM-undirbúning Íslands

22.05.2018 - 10:16
Viðskiptabann Rússlands á vörur frá Íslandi hefur torveldað undirbúninginn fyrir þátttöku Íslands á HM í fótbolta í sumar. Knattspyrnusamband Íslands getur til dæmis ekki flutt með sér mat eins gert var á Evrópumótinu í Frakklandi og þarf í staðinn að reiða sig á rússneskt hráefni.

Rússar settu viðskiptabann á tilteknar vörur frá Íslandi fyrir þremur árum. Það var refsing fyrir þátttöku Íslands í refsiaðgerðum vesturveldanna gegn Rússum eftir innlimun Krímskaga árið áður.

Óhemjutími í tollamál

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, var gestur á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun og segir að þetta hafi haft áhrif á undirbúninginn fyrir þátttöku Íslands á HM í Rússlandi.

„Við erum búin að eyða svolitlum tíma í tollamál. Það kom okkur… ég veit ekki hvort ég get notað orðalagið skemmtilega á óvart, en það kom okkur allavega á óvart hversu mikið það er,“ segir Klara.

„Það er viðskiptabann á milli Íslands og Rússlands og það þarf mikla nákvæmni í útfyllingu allra tollaskýrslna. Það er búinn að fara óhemjutími í það en við vonum að við séum að ná því góðu núna. Við tökum óhemjumagn með okkur, bæði af fatnaði, tæknibúnaði og öllu slíku – lyfjum og læknistækjum. Það er búinn að fara mjög mikill tími í þetta,“ segir Klara.

Gylfi fær ekki eitthvað vont í matinn rétt fyrir leik

Viðskiptabannið hefur einnig áhrif á matinn. Klara segir að þegar landsliðið lék á Evrópumótinu í Frakklandi 2016 hafi hópurinn tekið þó nokkuð af mat með sér. „Við getum ekki gert það núna – við hreinlega megum ekki flytja hann inn,“ segir hún.

Liðið þarf því að reiða sig á rússneskt hráefni, sem Klara hefur þó ekki áhyggjur af. „Ég hef engar áhyggjur af rússnesku hráefni – það er til mjög gott rússneskt hráefni,“ segir hún. Auk þess verði tveir kokkar með í för sem matriði það í samræmi við óskir landsliðsmannanna.

„Rússneskur matur er aðeins frábrugðinn okkar mat og því sem við erum vön. Fótboltafólk er ekkert rosalega hrifið af nýjungum rétt fyrir leik,“ segir hún. „Okkar aðalkokkur er líka farinn að þekkja vel hvað hver leikmaður vill og auðvitað þarf að bregðast við því. Þremur tímum fyrir leik fer Gylfi ekki að fá eitthvað í matinn sem honum finnst vont. Við gerum það ekki.“

Létu skipta um gólfteppi á hótelinu

Klara segir að undirbúningurinn hafi þrátt fyrir þetta gengið vel og KSÍ sé mun betur statt í þeim efnum nú en á sama tíma fyrir EM í Frakklandi. „Þetta er talsvert stærra en EM – miklu stærra,“ segir hún um muninn á umgjörðinni. KSÍ hafi skipulagt allt niður í minnstu smáatriði. „Það er búið að skipuleggja hverja máltíð, hverja æfingu, hvern fund – allt. Það á ekkert að gerast af tilviljun úti – það er planið.“

Á milli leikja hefur liðið aðsetur á hótelinu Nadezhda í bænum Gelendzhik við Svartahaf. Klara segir fulltrúar KSÍ hafi farið þangað þrisvar í vettvangsferðir. „Það var mikil ánægja eftir að við fórum í þriðju ferðina. Það var búið að bregðast við öllum okkar óskum um breytingar – skipta um gólfteppi og annað slíkt,“ segir hún. Hótelið sé í gömlum sovéskum stíl, hafi verið mjög glæsilegt á sínum tíma en farið að láta verulega á sjá. „Það er búið að fríska það verulega upp.“

Áætlaður kostnaður 714 milljónir

50 manna hópur fer frá Íslandi til Rússlands, að liðinu meðtöldu. Klara segir að það sé langminnsti hópurinn af öllum sem verða á HM. Hún segir að KSÍ hafi fengið 900 milljónir króna til að standa straum af kostnaði við mótið og að kostnaðaráætlun hljóði nú upp á 714 milljónir. Hins vegar sé erfitt að vita hvað hlutir kosti í Rússlandi og sumir kostnaðarliðir séu enn ekki komnir á hreint – til dæmis sé ekki vitað hvað þurfi að borga fyrir þvott og fleira.

Mótið hefst 14. júní og fyrsti leikur Íslands er gegn Argentínu í Moskvu 16. júní. Hinir tveir leikirnir í riðlinum eru gegn Nígeríu í Volgograd 22. júní og Króatíu í Rostov við Don 26. júní. Liðið fer utan að morgni 9. júní.

Spáir Íslandi áfram – helst fyrir þriðja leik

Spurð hvernig hún spái að liðinu gangi segist Klara fullviss um að Ísland fari áfram í 16 liða úrslit. Líklegast sé að Ísland geri jafntefli í fyrsta leik við Argentínu og sigri síðan Nígeríu. Þannig væri liðið komið með annan fótinn í 16 liða úrslit áður en leikið er við Króata.

„Það væri svo þægilegt að vera komin langleiðina áfram eftir tvo leiki – þá höfum við meiri tíma til að skipuleggja okkur fyrir 16 liða úrslitin,“ segir Klara Bjartmarz. „Það væri pínulítil pressa ef við færum ekki í 16 liða úrslitin fyrr en eftir þriðja leikinn. Praktísku hlutirnir sko – þetta er húsmóðirin hjá KSÍ sem talar.“

Hægt er að hlusta á viðtalið við Klöru í heild sinni í spilaranum hér að ofan.