Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Víðsjárvert kvæðamannamót á áramótum

Mynd: rúv / samsett mynd

Víðsjárvert kvæðamannamót á áramótum

02.01.2017 - 16:19

Höfundar

Í tilefni áramóta brá Víðsjá á leik og skoraði á nokkur skelegg skáld til að kveðast á. Þau tóku vel í það. Þórarinn Eldjárn reið á vaðið, en við vörpuðum til hans einum sígildum:

Komdu nú að kveðast á,

kappinn, ef þú getur... 

Hann átti ekki í nokkrum erfiðleikum með að botna þann metnaðarlausa fyrripart:

Ekki bara jamm og já

og jæja. Gerðu betur.

Þórarinn Eldján sauð svo saman næsta fyrripart: 

Rúmstokkurinn reynist best

sé róið fram í gráðið

Kristín Svava Tómasdóttir svaraði: 

en liggir þú í landfarsótt

er lýsi skásta ráðið.

Kristín Svava sendi svo næst á Hermann Stefánsson, en það sem hann vissi ekki var að sá var stolinn úr skáldsögu Péturs Gunnarssonar – og Kristín var því að prófa utanbókarlærdóm Hermanns og fiska eftir ákveðnum seinniparti. 

Nú ymur landið, eldar loftin sleikja

og aftansólin laugar sig í bárum

Hermann hunsaði allar bókmenntatengingar og svaraði um hæl: 

Við Sæbarinn má sitja úti og reykja

og segja fátt en dæsa og fara úr hárum.

Hér færðist svo fjör í leikana, því Hermann gat ekki setið á sér að kveða sinn fyrripart við stemmu og skoraði þar með á Þórdísi Gísladóttur að fylgja henni eftir. Hermann byrjar: 

En hver er þar sem hvarvetna má líta

með hvassa brún við þjóðveg númer eitt?

Þórdís var hvergi bangin og stemman lifði í seinni hlutanum: 

Túrista sem úti í skafli skíta,

við norðurljósaskin og það er leitt.

Þórdís lét þó þar við sitja og kvaddi stemmuna, en kvað eftirfarandi fyrripart til Dags Hjartarsonar:

Þessi vetur veit á illt,

hér er ekki vitund kalt.

Dagur Hjartarson svarar, ögn beittari: 

Á Hrafnabjörgum harð er býlt,

hræri Simmi kakómalt.

Og Dagur heldur áfram að lauma pólitíkinni inn í kveðskapinn og horfir til sólarlanda: 

Áður á Panama Pina Colada

píreygur hrærði sér móti sól

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson sparar ekki stóru orðin og svarar: 

einatt til vandræða verður og skaða

vonandi horfinn um næstu jól.

Hann heldur svo áfram, greinilega áhyggjufullur af seinagangi ríkisstjórnarmyndunarviðræðna (orð sem hefði verið kjörið að lauma í eina vísuna): 

Ekki dugar ógnar pex

af því stjórnarkreppan vex

Sigurlín Bjarney Gísladóttir veit að Þjóðverjar eru lunknir í stjórnmálum og lögregluhundurinn Rex væri því kjörinn til þess að ráða úr þessum málum, með smámútum: 

hóum nú í hundinn Rex

og honum gefum mjólkurkex

Fleiri dýr hvísla að henni fréttum úr menningarlífinu: 

Nú er bólgin bókatíð

blístra fagrir fuglar

Ragnar Helgi Ólafsson hefur hins vegar áhyggjur af áhrifavöldum umræðunnar í háloftunum: 

Auglýsinga-orrahríð

aumingjana ruglar.

Ragnar Helgi var staddur á hrafnaþingi þar sem krummarnir ræddu um útgáfu ársins og var ekki viss um hverjum hann gæti treyst. Hann henti þess vegna áhyggjufullur í eina heilkveðna aukavísu: 

Flestum þykir fuglinn sinn

vera fríður, bestur.

Margir mala um dómana

en færri stunda lestur.

Hugsanlega óttast hann þó að lesendur sínir telji sig heldur bölsýnan, svo hann sendir þennan torvelda fyrripart á skáldvin sinn Atla Sigþórsson, Kött Grá Pjé: 

Heimsósómaljóðagerðarlist,

er fag sem fáir kunna að meta

Atli svarar að bragði og nýtir sér bæði stærðfræði- og lyndistákn til að koma sínum hjartans málum á framfæri, sem og skammstafanir og ensk smáorð: 

æji fuck og omg hve það er trist

að ást sé < furuköngulshneta ;(