Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Viðreisn vill boða til kosninga hið fyrsta

15.09.2017 - 04:06
Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson / - Brynjólfur Þór Guðmundsson
Þingflokkur Viðreisnar telur að í ljósi stöðunnar sem nú er komin upp sé réttast að boðað verði til kosninga hið fyrsta. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem flokkurinn sendi frá sér í nótt. Boðað var til fundar í þingflokki Viðreisnar eftir að Björt framtíð tilkynnti stjórnarslit við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar.

Fundurinn hófst um klukkan eitt og lauk um klukkan fjögur. Að fundi loknum sendi þingflokkurinn eftirfarandi yfirlýsingu frá sér:

Fréttir gærdagsins af málsmeðferð um uppreist æru hafa vakið sterk viðbrögð innan raða Viðreisnar líkt og í samfélaginu öllu. Vinnubrögð í málum af þessu tagi verða að standast stranga skoðun þar sem ekkert er undan dregið. Það er skylda stjórnvalda gagnvart almenningi og þolendum þeirra alvarlegu glæpa sem málið varða.

Í ljósi stöðunnar sem nú er komin upp telur þingflokkur Viðreisnar réttast að boðað verði til kosninga hið fyrsta.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Yfirlýsing þingflokks Viðreisnar
larao's picture
Lára Ómarsdóttir