Viðreisn segist hafna dilkadráttum

22.10.2016 - 17:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Viðreisn ítrekar að flokkurinn sé tilbúinn að vinna með öllum flokkum, allt frá Sjálfstæðisflokki til Vinstri grænna, í fréttatilkynningu. Flokkurinn boðar blaðamannafund í kosningamiðstöð sinni í Höfðatorgi á morgun. Líkt og hefur komið fram munu stjórnarandstöðuflokkarnir ræða samstarf á morgun. Píratar buðu Vinstri grænum, Samfylkingunni, Viðreisn og Bjartri framtíð til viðræðna um stjórnarsamstarf á dögunum. Aðrir flokkar en Viðreisn þáðu það boð.

Í tilkynningu segir að Viðreisn vilji að kjósendur eigi kost á frjálslyndri stjórn sem getur dregið fram það besta á andstæðum vængjum stjórnmálanna. „Vangaveltur um mögulegt stjórnarmynstur hafa verið fyrirferðarmiklar á síðustu dögum. Útgangspunkturinn hefur gjarnan verið sá að stilla flokkum upp í andstæðar fylkingar. Viðreisn hefur ekki viljað taka þátt í slíkum gamaldags dilkadrætti, en leggur áherslu á að ná samstöðu um málefni til þess að endurbyggja traust almennings á stjórnmálum,“ segir í tilkynningu

Í tilkynningu segir að stöðugleiki á sviði stjórnmálanna, á vinnumarkaði og í efnahagsmálum sé best tryggt með því að skipta ekki um pól á fjögurra ára fresti og kjósa öfganna á milli. Ekki kemur fram í tilkynningu hvaða tíðindi verði boðuð á blaðamannafundinum á morgun. 

Hjálmar Friðriksson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi