Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Viðreisn býður fram sér í Hafnarfirði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Viðreisn býður fram eigin lista við sveitarstjórnarkosningar í Hafnarfirði í vor. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að Viðreisn hafi átt mjög gott samstarf og samtal við fólk í Bjartri framtíð um sameiginlegt framboð. Að lokum hafi þó ekki orðið af því vegna deilna sem risið hafa innan Bjartrar framtíðar undir lok kjörtímabilsins. Þess í stað hafi verið ákveðið að bjóða fram C-lista Viðreisnar, meðal annars til að nýta tímann fram að kosningum vel.

Uppstillingarnefnd Viðreisnar hefur undanfarið lagt lokadrög að framboðslistanum sem verður kynntur innan skamms. 

Þorgerður Katrín segir að mikill vilji hafi verið fyrir því að starfa með frjálslyndu fólki. Undanfarið hafi fólk hins vegar fylgst með dapurlegri atburðarás innan Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði. Því hafi verið ákveðið að Viðreisn bjóði fram undir eigin nafni í Hafnarfirði.

Þorgerður Katrín vísar til þess að víða sé Viðreisn í samstarfi við aðra flokka, svo sem í Kópavogi, þar sem flokkurinn býður fram með Bjartri framtíð, og í Garðabæ þar sem margir flokkar bjóða fram saman. „Við eigum í mjög góðu samstarfi við frjálslynt fólk víða. Það veit á gott.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV