Viðræðuslit við ESB ólíkleg fyrir þinglok

06.05.2014 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður utanríkismálanefndar Alþingis segir ólíklegt að heildarmeðferð tilllögu utanríkisráðherra um að draga til baka umsókn að Evrópusambandinu geti lokið fyrir 16. maí þegar þingfrestun á að vera. Ákvörðun um sumarþing liggi ekki fyrir fyrr en samið verði um afgreiðslu mála.

Fjölmörg mál eru enn óafgreidd og ekkert samkomulag er um afgreiðslu einstakra mála. Tillaga utanríkisráðherra um að draga til baka aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu var til umfjöllunar á fundi utanríkismálanefndar sem stóð í allan morgun og lauk rétt fyrir hádegisfréttir en þar var meðal annars tekið á móti gestum. Birgir Ármannsson er formaður nefndarinnar.

"Staða málsins er auðvitað sú að það er ólíklegt að heildarmeðferð málsins geti lokið í þinginu fyrir 16. maí, en málið er hins vegar enn á dagskrá og verður til meðferðar hjá okkur í nefndinni samhliða öðrum málum sem við þurfum að afgreiða, einfaldlega út af dagsetningum og öðrum slíkum þáttum."

Birgir segir enn alveg óljóst hvort sumarþing verði kallað saman. Mörg stór mál ríkisstjórnarinnar séu enn óafgreidd og stutt að áætluðum þinglokum.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi