Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Viðræður við Indigo „eyði óvissunni í bili“

30.11.2018 - 18:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjárfestingasjóðurinn Indigo Partners, sem á í viðræðum við Wow air, hefur fjárfest í lággjaldaflugfélögum víða um heim. Stjórnandi hans hefur verið kallaður faðir lággjaldalíkansins. Hagfræðingur segir ákveðinni óvissu hafi verið eytt í bili, markaðurinn hafi tekið tíðindunum vel. Forstjóri Airport associates vonast til þess að uppsagnir gærdagsins verði dregnar til baka.

 

Á flugfélög beggja vegna Atlantsála

Fjárfestingasjóðurinn var stofnaður árið 2002 og er með höfuðstöðvar í Phoenix í Arizona í Bandaríkjunum. Indigo Partners á bandaríska flugfélagið Frontier Airlines og hefur að auki fjárfest í bandaríska félaginu Spirit airlines, mexíkóska flugfélaginu Volaris, chileska flugfélaginu JetSmart, singapúrska félaginu Tiger air og hinu ungverska Wizz air.

Flest blómstrað, fyrir utan Tiger air

Á vef Forbes, segir að flest félaganna sem Indigo Partners hefur fjárfest í hafi blómstrað að undanskyldu Tiger air sem sameinaðist öðru. Wizz hefur til dæmis vaxið hratt undanfarin ár.

Wizz flýgur frá Keflavík til níu borga, einkum í Austur-Evrópu. Forsvarsmenn sjóðsins þekkja því til á Íslandi.

Íslandstenging í gegnum Wizz

Wizz flýgur nær eingöngu innan Evrópu og það flýgur ólíkt Wow ekki til Bandaríkjanna. Það er því spurning hvort forsvarsmenn Indigo sjái tækifæri í samstarfi Wow, Wizz og jafnvel fleiri lággjaldafélaga sem þeir hafa ítök í. 

Indigo Partners fjárfestir einkum í svokölluðum ofurlággjaldaflugfélögum sem bjóða mjög ódýr fargjöld og rukka fyrir nær allt. Á síðasta ári keypti sjóðurinn 430 Airbus vélar, á fimmtíu milljarða dollara, eða rúmlega sex þúsund milljarða króna.  Airbus hefur aldrei selt fleiri vélar í einu. Flestar þeirra fóru til Wizz, um 146, hinar til Frontiers Airlines, Voleris og JetSmart. 

Hafði mikil áhrif á flugbransann í Bandaríkjunum

Stofnandi sjóðsins William Franke, hefur verið kallaður faðir lággjaldalíkansins og er 81 árs. Hann sérhæfði sig í viðsnúningi fyrirtækja sem voru í rekstrarerfiðleikum, tókst oft vel upp og var kallaður Mr. fix it. Hann kom inn í flugbransann í byrjun tíunda áratugarins, þegar hann var beðinn að koma félaginu America West, sem átt hafði í erfiðleikum, aftur á flug. Í umfjöllun Los Angeles times um Franke er sagt að hann hafi gert gott betur, breytt því hvernig flugfélög voru rekin vestanhafs. Þau félög sem ekki buðu ofur lág fargjöld hafi þurft að endurskoða rekstur sinn.

Franke er stjórnarmaður í mörgum fyrirtækjanna sem Indigo fjárfestir í og er sagður láta sig rekstur þeirra varða, vélarnar megi lítið standa milli ferða og fargjöld þurfi að vera ódýr. Því hefur verið velt upp, í þessu samhengi, hvort áhöfn Wow verði áfram íslensk. 

Grænn dagur

Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, segir að af markaðinum að dæma virðist hluta óvissunnar hafa verið eytt í bili - að mestu leyti er grænn dagur í kauphöllinni, þó verð á bréfum í Icelandair hafi fallið. Sveinn segir að Indigo sé þekktur sjóður sem hafi það að markmiði að byggja upp sterk lággjaldavörumerki. Þetta sé ekki fjárfestir sem sé að stíga sín fyrstu skref í flugbransanum. Hann vonar að þarna sé kominn langtímafjárfestir. Það sé engum í hag fari WOW á hliðina og því frábært verði af samningum. 

Líklega hægt að draga flestar uppsagnir til baka

Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri, Airport associates, segir fréttirnar af viðræðunum mjög jákvæðar. Tæpum helmingi starfsmanna fyrirtækisins, 237 var sagt upp í gær. Sigþór segir að líklega verði hægt að draga meginþorra uppsagnanna  til baka verði af samningum milli Wow og indigo Partners. Allt sé þetta þó háð því að Indigo og Wow nái að semja þannig að framtíðarrekstur Wow verði tryggður. Það hversu margir fá endurráðningu ráðist svo af því hver endanlegur fjöldi þotna í flugflota Wow verði.