Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Viðræður um samruna ganga vel

07.11.2018 - 08:46
Mynd með færslu
 Mynd: Bændablaðið - RÚV
Formaður landssamtaka sláturleyfishafa segir að rýmri heimildir til samstarfs og sameininga væru lykilatriði til að hagræða í afurðastöðvakerfinu. Góður gangur er í viðræðum Norðlenska og Kjarnafæðis. 

Framsóknarkonurnar Halla Signý Kristjánsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir hafa lagt fram frumvarp, sem gerði afurðastöðvum heimilt að sameinast og eiga í annars konar samstarfi. Þetta er gert til að gefa innlendum kjötframleiðendum tækifæri til að hagræða og bregðast við vaxandi samkeppni að utan, bændum og neytendum til hagsbóta.

Kannski stærsta leiðin til hagræðingar

Ágúst Torfi Hauksson, formaður landssamtaka sláturleyfishafa, styður frumvarpið, enda sé rekstur afurðastöðva afar bágborinn. „Það er klárlega þörf á því að skoða allar leiðir til hagræðingar. Þetta er klárlega ein af þeim, kannski sú stærsta,“ segir Ágúst Torfi. 

Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra félags atvinnurekenda, líst illa á frumvarpið og er haft eftir honum í Fréttablaðinu að innlendum framleiðendum sé engin vorkunn að standa af sér samkeppni, enda séu þeir verndaðir með háum tollum.

Geta illa keppt við erlend stórfyrirtæki

Ágúst Torfi segir að enginn sé hræddur við samkeppni, en hún sé ekki stunduð á jafnréttisgrundvelli. „Þau fyrirtæki sem eru að vinna hér á innanlandsmarkaði eru agnarsmá í samnaburði við þau fyrirtæki sem eru að framleiða þær vörur sem fluttar eru inn og hafa ekki tök á að ná þeirri hagræðingu og þeim lága framleiðslukostnaði sem nauðsynlegur er til að geta staðið í samkeppni við félög sem eru margfalt stærri,“ segir Ágúst Torfi. 

Kjarnafæði og Norðlenska hófu viðræður um samruna í lok sumars. Ágúst Torfi, sem er framkvæmdastjóri Norðlenska, segir að viðræður séu á áætlun og gangi vel. Nú sé unnið að áreiðanleikakönnunum og svo þurfi samkeppnisyfirvöld að samþykkja. Þetta ferli geti tekið nokkra mánuði. „Ég met það þannig að það væri afskaplega æskilegt að þetta yrði að veruleika, fyrir alla sem að málinu koma,“ segir hann. 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV