Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Viðræður snúast að erfiðari málum

18.12.2012 - 12:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Á ríkjaráðstefnu Íslands og Evrópusambandsins í morgun hófust viðræður um sex nýja málaflokka. Nú eru viðræðurnar að færast úr þrautræddum málum Evrópska efnahagssvæðisins inn í önnur mál sem sum hver gætu reynst erfið fyrir báða aðila, þar á meðal umhverfismál.

Byggðamálin komu einnig til umræðu en í þeim sér Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra mikla möguleika fyrir íslenska byggðaþróun.

Á ríkjaráðstefnu Íslands og Evrópusambandsins í Brussel í morgun hófust viðræður um sex nýja málaflokka af 35 og viðræðum um einn flokk lauk. Þetta þýðir að bæði íslenska samninganefndin og viðsemjendurnir eru búnir að koma sér saman um samningsaafstöðu í þessum málum. Efnin eru frjálsir vöruflutningar, skattamál, efnahags- og peningamál, byggðastefna, umhverfismál og utanríkistengsl. Viðræðum um samkeppnismál er nú lokið.

Í umhverfismálum eru hvalveiðar eitt af áhersluatriðum Íslendinga en ESB leggst gegn hvalveiðum. Þó veiðarnar varði ekki almannahagsmuni leggur Össur Skaprhéðinsson utanríkisráðherra áherslu á að veiðarnar séu hluti af þjóðlegri arfleifð Íslendinga.

Ýmis jaðarlönd í ESB hafa notið góðs af byggðastefnu og uppbyggingarsjóðum Evrópusambandsins. Í viðtali við fréttastofu Rúv sagði Össur að um þetta væru mörg dæmi. Hann vænti þess að sama gæti gerst á Íslandi og það gæti leitt til jákvæðra breytinga í íslensku dreifbýli langt um fram það sem menn gætu ímyndað sér.

Makrílveiðar Íslendinga koma ekki við sögu í aðildarviðræðunum. Stefan Füle framkvæmdastjóri stækkunarferlis ESB sagði í viðtali við fréttastofu að makrílveiðarnar væru eitt þeirra mála sem mótuðu andrúmsloftið þó veiðarnar væru ekki á dagskrá í aðildarviðræðunum.