Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Viðræður helgarinnar stóráfallalausar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson - Egilsstaðir
Meirihlutaviðræður Framsóknar og Sjálfstæðisflokks á Fljótsdalshéraði gengu vel um helgina að sögn Stefáns Boga Sveinssonar, oddvita framsóknarmanna. „Það hefur ekkert komið upp sem hefur orðið til verulegra vandræða í þessu samtali,“ segir hann.

Fulltrúar flokkanna eigi þó eftir að hittast og fara betur yfir ákveðin mál. Hann býst við að niðurstaða fáist upp úr miðri viku. Ef allt gangi upp á hann von á að málefnasamningur verði kynntur um það leyti sem fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar verður haldinn.

Hann telur allar líkur á að niðurstaðan verði að ræða við Björn Ingimarsson bæjarstjóra um að hann haldi starfinu áfram en hann hefur verið bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði síðan 2010.

Eins og komið hefur fram sigldu þreifingar á milli Sjálfstæðisflokks og Héraðslista í strand og ákváðu Sjálfstæðisflokkur og Framsókn þá að hefja formlegar viðræður. 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV