Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Viðræður á lokastigi í Fjarðabyggð

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
„Hluti af málefnasamningnum er að starf bæjarstjóra verði auglýst,“ segir Eydís Ásbjörnsdóttir, oddviti Fjarðalistans, sem er langt kominn með formlegar meirihlutaviðræður við Framsókn og óháða í Fjarðabyggð.

Eydís vildi ekki á þessari stundu gefa upp að öðru leyti hverjar væru helstu áherslur í samnignum en sagði viðræður á lokastig. „Ef allt gengur upp munum við ganga frá málefnasamningi núna í vikunni,“ segir hún.

Páll Björgvin Guðmundsson, fráfarandi bæjarstjóri í Fjarðabyggð, hefur gegnt starfinu frá árinu 2010. Hann setti eftirfarandi færslu á facebook á laugardag. 

„Á næstu dögum rennur út samningur minn við sveitarfélagið um starf bæjarstjóra Fjarðabyggðar. Það hefur sannarlega verið mikill heiður að fá að sinna þessu fjölbreytta og gefandi starfi í þessi tæp átta ár sem liðið hafa ótrúlega hratt. Það hefur gengið vel og geng ég glaður og sáttur frá borði. Ég hef fengið tækifæri til þess að koma fjölmörgum verkefnum áfram sem munu bæta samfélagið hér til framtíðar og um leið kynnst harðduglegu og skemmtilegu fólki í sveitarfélaginu og á öllu Austurlandi.

Mörg verkefni eins og Norðfjarðargöngin, Háskólasetrið, fjölskyldustefnan, sjúkraflugvöllurinn, uppbygging leikskóla, uppbygging hafna og ofanflóðamannvirkja, Franska safnið og menningarstofa eru verkefni, að öllum öðrum fjölmörgu ólöstuðum, sem ég er hvað ánægðastur með að komist hafa til framkvæmda. Á sama tíma hefur góðum tökum á fjármálum sveitarfélagsins verið náð og þjónustustig verið gott.

Um leið og ég óska nýrri bæjarstjórn farsældar í störfum sínum vil ég þakka samstarfsfólki mínu hjá Fjarðabyggð fyrir frábært samstarf sem og þeim bæjarfulltrúum og nefndarfólki sem ég hef verið svo heppinn að fá að starfa með þessi tvö kjörtímabil. Þá að sjálfsögðu öllum íbúum sveitarfélagsins. Síðast en ekki síst fjölskyldu minni sem staðið hefur með mér eins og klettur að venju.

Framundan eru nýjir, breyttir og spennandi tímar hjá fjölskyldunni, þar sem við munum njóta sumarsins og taka fagnandi á móti nýjum tækifærum.“

 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV