Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Viðræðum Arabaríkja frestað vegna formsatriðis

09.09.2017 - 05:55
U.S. Secretary of State Rex Tillerson meets with the Emir of Qatar, Sheikh Tamim Bin Hamad Al Thani at the Sea Palace, in Doha, Qatar, Tuesday, July 11, 2017.  Tillerson arrived in Qatar as he tries to mediate a dispute between the energy-rich country and
Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ræddi við Sheikh Tamim Bin Hamad Al Thani, emír í Katar fyrr í sumar til að freista þess að miðla málum í deilunni. Mynd: AP - Utanríkisráðuneyti Bandaríkj
Fyrirhugaðar samningaviðræður ráðamanna í Katar og Sádi-Arabíu, sem boðaðar voru í framhaldi af símtali emírsins í Katar og krónprinsins í Sádi-Arabíu á föstudag, voru settar á ís áður en þær hófust. Svo virðist sem hreint formsatriði valdi þessu: Sádi-Arabar eru ósáttir við að katarskir fjölmiðlar - og yfirvöld - skuli ekki hafa tekið það skýrt fram, að það var emírinn sem hringdi í krónprinsinn, en ekki öfugt.

Katar hefur staðið í stappi við nokkur Arabaríki önnur, með Sádi-Arabíu fremsta í flokki, um þriggja mánaða skeið. Leiddar hafa verið að því líkur að upphaf deilunnar megi rekja til uppdiktaðra frétta af jafn uppdiktuðum ummælum emírsins í Katar, sem tölvuþrjótar laumuðu inn í opinberar fréttaveitur, en deilan hefur undið töluvert upp á sig í millitíðinni og þrætueplunum fjölgað.

Mikið hefur verið reynt til að miðla málum og á föstudag ræddu þeir saman í síma, Tamim bin Hamad al Thani, emír af Katar, og  Mohammed bin Salman, krónprins af Sádi Arabíu. Voru þetta fyrstu, beinu samskipti stjórnvalda í Doha og Ryad síðan ríkin slitu nánast öllum samskiptum fyrir rúmum þremur mánuðum. Ríkisfjölmiðlar beggja landa greindu frá símtalinu, þar sem báðir þjóðhöfðingjarnir munu hafa lýst sig viljuga að hefja viðræður til að binda enda á deilurnar og tryggja þannig öryggi og frið meðal ríkjanna sex sem mynda Samstarfsráð Persaflóaríkja.

Símtali þjóðhöfðingjanna var fagnað víða og það sagt marka vatnaskil í deilunni. Í fréttum katörsku ríkisfréttastofunnar er sagt að símtalið hafi orðið að veruleika fyrir tilstilli Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta. Þar er ekkert ofsagt, því Trump mun hafa rætt við þá báða, prinsinn og emírinn, og lagt áherslu á mikilvægi þess að arabískir bandamenn Bandaríkjanna næðu fyrri samstöðu til að tryggja öryggið í þessum heimshluta og ráða niðurlögum hryðjuverkaógnarinnar. Fréttaritari Al Jazeera í Washington segir mikla bjartsýni hafa ríkt í Hvíta húsinu eftir að Trump tókst að fá leiðtogana til að ræðast við, milliliðalaust.

Það sem katörsku ríkisfréttastofunni láðist hins vegar að segja frá - en þeirri sádi-arabísku ekki - var sú staðreynd, að það var emírinn sem hringdi í krónprinsinn til að beiðast viðræðna um kröfur Sádi Araba og bandamanna þeirra, en ekki öfugt. Þetta, segir í sádi-arabískum fjölmiðlum, kallast að gefa ranga mynd af staðreyndum. Og svo mikilvægt virðist það vera í heimi milliríkjasamskipta og siðareglna í Miðausturlöndum, hvor það er sem hringir í hinn í svona tilfellum, að frekari viðræðum hefur verið frestað um óákveðinn tíma.

Í yfirlýsingu sem ríkisfréttastofa Sádi-Arabíu birti á föstudagskvöld er er haft eftir ónafngreindum embættismanni í utanríkisráðuneytinu að „Konungsríkið Sádi Arabía tilkynnir frestun allra viðræðna og samskipta við yfirvöld í Katar þar til skýr og afdráttarlaus yfirlýsing um afstöðu þeirra til þessa hefur verið birt opinberlega.“ 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV