Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Viðkvæmar upplýsingar aðgengilegar

30.11.2013 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Þúsundir lykilorða, sms-skeyta og annarra persónuupplýsinga um viðskiptavini Vodafone hefur verið lekið á netið eftir netárás á vefsíðu fyrirtækisins í nótt.

Vefsíða Vodafone á Íslandi varð fyrir netárás í nótt, og var lokað í kjölfarið. Á vefsíðunni Cyber War News er því lýst yfir að upplýsingar um 77 þúsund viðskiptavini hafi náðst frá Vodafone, sem innihaldi meðal annars persónuupplýsingar eins og kennitölur, nöfn, heimilisföng og í einhverjum tilvikum bankaupplýsingar, auk dulkóðaðra lykilorða.

Tyrkneskur hakkari hefur lýst árásinni á hendur sér og gert upplýsingarnar aðgengilegar á netinu, enda virðist eini tilgangur hans vera að sýna mátt sinn. Því er veruleg hætta á að viðkvæmar persónuupplýsingar komist í hendur óprúttinna aðila. Þeir sem þekkja til dulkóðunar segja einnig líklegt að dulkóðun lykilorðanna verði leyst. Því er mikilvægt að fólk sem hefur haft sama lykilorð eða svipuð lykilorð á fleiri stöðum, skipti um lykilorð alls staðar. 

Talsmaður Vodafone Hrannar Pétursson, sendi frá sér tilkynningu í morgun þar sem fullyrt var að ekkert benti til þess að trúnaðarupplýsingar hafi komist í hendur óviðkomandi. Það er augljóslega rangt. Þegar fréttamaður benti á að gögn um viðskiptavini Vodafone væru aðgengileg á netinu, sagðist Hrannari ekki vera kunnugt um það.  

Vodafone sendi frá sér uppfærða tilkynningu kl. 12:23:

„Svo virðist sem að hakkari sem réðist á vefsíðu Vodafone í nótt hafi náð í viðkvæm gögn ólíkt því sem talið var í fyrstu. Unnið er að því að meta heildarumfang málsins með færustu gagna- og veföryggissérfræðingum landsins. Vodafone lítur málið afar alvarlegum augum og mun veita upplýsingar eftir því sem þær liggja fyrir.  Fyrirtækið biðst velvirðingar á því að í upphaflegri tilkynningu hafi komið fram að engar trúnaðarupplýsingar hafi komist til óviðeigandi.“