Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Viðgerð lokið á Kópaskerslínu

19.12.2019 - 21:34
Mynd með færslu
 Mynd: Björgunarfélagið Blanda - Aðsend mynd
Í kvöld lauk viðgerðum á Kópaskerslínu. Línan hefur verið biluð í rúma viku eftir óveður sem gekk yfir landið í seinustu viku. Línan var spennusett frá Þeistareykjum laust fyrir klukkan sjö í kvöld.

Eftir að Laxárstöð hafði verið fösuð við línuna var spennir 1 á Kópaskeri spennusettur. Skerðingum hefur verið aflétt og varaaflskeyrslu á svæðinu verður hætt. Rarik greinir frá því að viðgerðin hafi gengið betur en búist var við. Ef vel gangi að koma henni í rekstur, verði hægt að stoppa varaaflskeyrslu á Þórshöfn, Bakkafirði og Raufarhöfn í kvöld eða í nótt.

Dalvíkurlína var spennusett í gærkvöld og var varðskipið Þór aftengt í kjölfarið. Mannskapur sem unnið hefur að viðgerð á Dalvíkurlínu var fluttur til aðstoðar þeim sem unnu að viðgerðum á Kópaskerslínu. 

Rarik greinir einnig frá því að enn séu nokkrar bilanir í dreifikerfi RARIK sem mun taka nokkra daga að lagfæra og að búast megi við truflunum á afhendingu rafmagns á meðan þetta ástand varir.