Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Viðgerð á Akureyrarkirkju kostar 13 milljónir

21.08.2017 - 22:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Það kostar tæpar 13 milljónir króna að gera við skemmdir sem unnar voru á Akureyrarkirkju í vetur. Formaður sóknarnefndar segir að söfnuðurinn geti enganveginn staðið undir svo miklum kostnaði óstuddur. Öryggismyndavélar hafa nú verið settar upp við kirkjuna.

Skemmdarvargur fór um á Akureyri í vetur og úðaði hatursfull skilaboð á fjórar kirkjur. Fljótlega tókst að fjarlægja málninguna af þremur kirkjum, en ekki hefur tekist að hreinsa veggi Akureyrarkirkju svo vel sé.

Geta enganvegin tekist á við slíkt áfall án aðstoðar

Af tæplega fimmtán milljón króna viðgerðarkostnaði samtals, eru viðgerðir á henni langdýrastar. Það er talið að það kosti 12,7 sjö milljónir að gera við skemmdirnar þar. Það eru meiri útgjöld en söfnuðurinn getur staðið undir óstuddur. „Akureyrarkirkja er út af fyrir sig ágætlega sett til þess að takast á við daglegan rekstur,“ segir Ólafur Rúnar Ólafsson, formaður sóknarnefndar. „En við erum enganveginn tilbúin til þess að takast á við áföll eins og þetta. Og algerlega fyrirséð að kirkjan sem slík, og sóknin, mun ekki geta risið undir þessarri framkvæmd ein og sér.“

Mun meira en bara sóknarkirkja 

Ólafur segir það liggja fyrir að Akureyrarkirkja sé mun meira en bara kirkja safnaðarins. Hún sé táknmynd Akureyrar og þúsundir ferðamanna heimsæki kirkjuna ár hvert. „Við höfum í þessu ljósi og ljósi þessarra miklu skemmda, eða umfangs þeirra, sótt um styrk til Jöfnunarsjóðs kirkna og væntum þess að þar verði horft með velþóknun til okkar. Og síðan munum við væntanlega leita til Húsafriðunar um það að fá eitthvað tillegg líka.“

Útliti kirkjunnar má ekki raska

Allt ytra byrði kirkjunnar er friðað og útlitinu má ekki raska og því þarf að fjarlægja steinda klæðningu af veggjunum, langt umfram skemmdirnar. „Og við getum ekki farið neina skemmri skírn í viðgerðum og það kemur fram í skýrslunni, sem gerð var, að ef klæðningin verður ekki öll tekin í gegn þar sem orðið hefur skemmd þá verði hún flekkótt og við getum ekki búið við það,“ segir Ólafur. „Matsmaðurinn telur að það verði ekki nægjanlega góð niðurstaða önnur en að taka klæðninguna af í heild, þar sem skemmdirnar eru, þannig að það náist jöfn og góð áferð varanleg á alla fletina sem orðið hafa fyrir skemmdum.

Öryggismyndavélar komnar á kirkjuna

Fjórum öryggismyndavélum hefur nú verið komið fyrir á kirkjunni. „Við fengum gefins öryggismyndavélar og þær eru nú komnar upp og byrjaðar að taka upp allar mannaferðir við kirkjuna. Þannig að við eigum þess kost þá að líta á upptökur og sjá hvað hefur farið hér fram ef þess gerist þörf aftur,“ segir Ólafur Rúnar.