Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Viðbúið að fleiri fylgi Guðmundi

22.08.2011 - 19:36
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir afstöðu flokksins gegn Evrópusambandsaðild hafa skipt miklu um ákvörðun Guðmundar Steingrímssonar. Hann segir viðbúið að einhverjir fylgi Guðmundi úr flokknum.

„Auðvitað er leiðinlegt að missa góðan mann úr flokknum,“ segir Sigmundur. „Ég hinsvegar ræddi þetta mál við hann áðan og hann útskýrði mjög vel ástæðurnar fyrir því að hann tekur þessa ákvörðun. Hann gerir það að vel athuguðu máli. Svoleiðis að ég óska honum velfarnaðar áðan.“

En óttast formaðurinn að fleiri Framsóknarmenn eigi eftir að fylgja Guðmundi? „Auðvitað er alltaf sérstaklega þegar það er svona mikið er um að vera í pólitíkinni að þá séu hreyfingar á fólki. Mér skilst að að undanförnu hafi heldur fleiri bæst við flokkinn en hafi farið úr honum en það er viðbúið að einhver hreyfing verði á því áfram,“ segir Sigmundur Davíð.

Einar Skúlason hefur einnig, samkvæmt fésbókarsíðu sinni, sagt sig úr Framsóknarflokknum og sent forseta Alþingis bréf um að hann hafi sagt af sér sem varaþingmaður.

Guðmundur Steingrímsson verður gestur Kastljóss í kvöld.